Þjóðstjórn er út í hött

Katrín Jakobsdóttir hefur fleytt þeirri hugmynd að nú væri ráð að mynda þjóðstjórn. Annað hvort er formaður VG að reyna að afvegaleiða umræðuna eða þá er hún svona illa að sér um stjórnmálasögu landsins. Það getur reyndar ekki verið. Hún hlýtur því að sjá einhvern tilgang með því að freista þess að beina umræðunni út og suður.

Þjóðstjórn hefur einungis verið mynduð einu sinni á Íslandi. Það var árið 1939 og ástæða þeirrar stjórnarmyndunar var að heimstyrjöld hafði brotist út. Því var um neyðarástand að ræða. Hermann Jónasson leiddi þá stjórn.

Haustið 2008 þegar hrunið var að bresta á, var rætt um að nú væri ástæða til að mynda þjóðstjórn til að takast á við þann gífurlega vanda sem þá blasti við. Ekki varð af myndun þjóðstjórnar. Margir telja að Davíð Oddsson, þá seðlabankastjóri, hafi skemmt þann möguleika þegar hann ruddist inn á rikisstjórnarfund, óboðinn, og lagði til að mynduð yrði þjóðstjórn. Frekjan í Davíð hafði svo slæm áhrif að ráðherrar ríkisstjórnarinnar gátu ekki hugsað sér að mynda þjóðstjórn úr því að Davíð lagði það til.

Á vikunum eftir hrunið kom einnig til tals milli stjórnmálaflokkanna að mynda þjóðstjórn. Það náðist því miður ekki samstaða um að mynda þá þjóðstjórn, m.a. vegna þess að engin sátt var um hver ætti að leiða slíka stjórn. Náttfari telur að þjóðstjórn á þeim tíma hefði verið farsæl fyrir þjóðina.

Núna er hvorki um hrun né heimstyrjöld að ræða og því er engin ástæða til myndunar þjóðstjórnar eða utanþingsstjórnar. Flokkarnir hljóta nú að ganga til verks og ljúka við stjórnarmyndun á næstu dögum.

Þrír kostir eru líklegastir að mati Náttfara:

 

  1. Að mynduð verði fjögurra flokka stjórn með stuðningi Pírata sem væru þó utan stjórnar en fengju forseta Alþingis í sinn hlut ásamt formanni stjornarskrárnefdnar. Væntanlega yrði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, Óttar Proppé menntamálaráðherra, félagsmálin kæmu í hlut Samfylkingar og Steingrímur J. gæti orðið utanríkisraðherra. Ætla má að ráðherrum yrði fjölgað í 11 með stofnun ferðamála-og samgönguráðuneytis. Þannig yrðu ráðherrar VG 4, Viðreisnar 4, BF fengi 2 og Samfykingin 1.
  2. Að mynduð verði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar. Það er stjórnarmynstur  sem Náttfari kallar þriggja framsóknarflokka stjórn. Einhver formanna þessara flokka yrði væntanelga forsætisráðherra.
  3. Að mynduð verði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og BF undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Þá yrði Benedikt Jóhannesson væntanlega fjármálaráðherra og Óttar Proppé menntamálaráðherra, enda finnst mörgum hann vera beinlínis fæddur í það starf. Hugsanlegt er að þessi stjórn tryggi sér aukinn stuðning með því að gera Sigurð Inga Jóhannsson að forseta þingsins.

Nú er bara að láta hendur standa fram úr ermum!