Láttu stilla hjólið þitt

Hjólreiðar njóta sífellt meiri vinsælda á Íslandi eftir því sem hjólaklæðnaður, hjólin sjálf og hjólastígar verða betri, fleiri og öruggari. Átakið hjólað í vinnuna hefur eitt og sér skilað þúsundum nýrra hjólakappa út á göturnar og sér þess augljóslega stað á vordögum þegar átakinu er hrundið af stað á hverju ári. Einhverjir kunna ef til vill að halda að sá vetur, sem nú stendur sem hæst, muni aldrei líða undir lok, en líkur eru þó á öðru; vorið mun láta á sér kræla eftir all nokkrar vikur - og þá er eins gott að hafa hjólið til taks. Upplagt er að nota tímann fram að annamesta hjólatímanum til að stilla járnfákinn sinn. Og því gleyma raunar alltof margir, að sögn Mogens Markússonar verslunarstjóra í GÁP, en hann er hjólasérfæðingur heilsuþáttarins Lífsstíls á Hringbraut sem verður á dagskrá á mánudagskvöldum fram á sumar. Mogens segir Íslendinga alltof lata við að koma með hjólin sín til sérfræðinga í hjólabúðum landsins og láta þá stilla sæti og stýrisarm í þá hæð sem hentar hverjum hjólreiðamanni. Þessi stilling skipti ekki aðeins sköpum fyrir hjólastíl og þægindi á hjólinu, heldur auki rétt stilling á öryggistilfinningu hvers hjólamanns. Algeng vanstilling leiði til dæmis oft til þess að hnéð læsist á neðra fótstigi sem eitt og sér geti verið hættulegt. Svona stilling taki nánast enga stund, en breyti öllu þegar klofað er upp á fákinn og rennireiðinn sé tekin út um borgir, bæi og bjarmalandið allt.