Tekur með sér sushi á fjöll

Anna Lára Friðriksdóttir fjallaleiðsögumaður segir það afar brýnt að kosturinn sem fólk taki með sér til fjalla sé jafn lystugur og hann gefi góða orku. Hún ætti að þekkja það að smyrja sér nesti því fjallaáhuginn kviknaði fyrir hálfum fjórða áratug, en þá hafði hún lagt stund á júdó af kappi og taldi sig þess albúna að fara á fjöll þegar kallið kom. Það gat ekki verið brattara; fyrsta ferðin var á sjálfan Hvannadalshnjúk.


Allar götur síðan hefur vegur Önnu Láru legið upp á næsta fjall eins og vel kom fram í heilsu- og útivistarþættinum Lífsstíl á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöld en þar var Anna Lára gestur Sigmundar Ernis í hressilegu spjalli um nautnina að njóta sín í náttúru fjalla. En spyrlinum var nánast orða vant þegar Anna Lára upplýsti hann um uppáhaldsfæðuna í öræfaferðum; jú, sushi, svaraði fjalladrottningin knáa, þar væri jú að finna hreint kolvetni og prótein sem færi vel í boxi og bragðaðist miklu betur en vanalegi skammturinn af samloku eða flatbrauði með hangikjöti. Aðalatriðið væri að vanmeta ekki hættuna af orkutapi uppi á fjöllum sem oft stafaði af ólystugu nesti; þegar liði á gönguna byði fólki við enn einum bitanum af sama vanalega nestinu - og því væri ráð að hafa eitthvað sérstaklega bragðgott  með sér upp um firnindin, já, jafnvel bara sushi. 


Hægt er að nálgast Lífsstíl undir sjónvarpsflipanum á hringbraut.is, svo og stuttar klippur úr þættinum hér neðar á forsíðunni.