Stórfelld aukning í sölu heilsuvara

Sala á bætiefnum á tengdum vöruflokkum hefur aukist um að minnsta kosti þriðjung á milli áranna 2012 og 2014 að því er fram kemur í tölum innflytjenda sem hringbraut.is hefur undir höndum. Ef marka má sömu tölur það sem af er ári virðist ekkert lát vera á þessari aukningu.


Forráðamenn stórverslana taka eftir þessari breytingu á högum viðskiptavina, en heilu heilsuvörudeildirnar hafa verið innréttaðar í mörgum helstu matvörubúðum landsins á allra síðustu árum. Samkvæmt orðum kaupmanna er ásóknin mest í alls kyns bætiefni; steinefni og vítamín, en þess utan hefur spurn eftir margs konar ávöxtum og grænmeti aukist til muna frá því sem áður hefur verið - og má þar helst nefna sítrónur, spínat, grænkál, engifer, rauðrófur og bláber svo fátt eitt sé nefnt. 


Aukinn áhugi fólks á grænu hillunum hefur ekki bitnað á hefðbundnari ávöxtum og grænmeti, heldur er að sögn kaupmanna hrein viðbót við önnur kaup á heilsufæði.