Stefanía dæmir sig úr leik

Stefanía Óskarsdóttir kennari í stjórnmálafræðum kemur stundum fram í fjölmiðlum og þykist vera hlutlaus og faglegur álitsgjafi en er í reynd miklu frekar álitshafi.

Hún tjáði sig í Fréttatímanum um fyrirhugað alþingisframboð Viðreisnar og tapaði þá hlutleysisgrímunni þannig að ekki verður hægt að líta á hana sem faglegan eða hlutlausan rýni heldur bara talsmann Sjálfstæðisflokksins sem hún er auðvitað.

Stefanía hefur verið í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn, er fædd inn í flokkinn og hefur verið þar frá upphafi. Óskar Friðriksson faðir hennar var helsti kosningasmali flokksins í áratugi og launaður starfsmaður í Valhöll.

Allt gott um það. Þetta þarf bara að vera öllum ljóst þannig að fólk líti ekki á Stefaníu sem \"hlutlausa og fræðilega\" í umfjöllun um íslensk stjórnmál því það er hún alls ekki.

Hún er og verður talsmaður hagsmuna þess hnignandi flokks, Sjálfstæðisflokksins.

Stefanía talaði um Viðreisn sem \"klofningsbrot úr Sjálfstæðisflokknum.\" Svona tala bara blindir flokkshundar.

Það þurfti hvorki Viðreisn né aðra til að Sjálfstæðisflokkurinn molnaði niður.

Forysta flokksins hefur séð um það sjálf með framkomu sinni, sviknum kosningaloforðum og afleitri stjórnsýslu.

Stefanía Óskarsdóttir og aðrir geta svo velt því fyrir sér næstu 14 mánuði hvort Viðreisn eða afgangurinn af Sjálfstæðisflokknum verður stærri í kosningunum vorið 2017.