Starfshópur með dulið hlutverk?

Margir ráku upp stór augu þegar ríkisstjórnin lét þau boð út ganga að ráðherranefnd um efnahagsmál hefði skipað þriggja manna starfshóp um hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífs.  Menn spurðu hver annan í forundran: Liggur þetta ekki fyrir? Er þetta ekki öllum ljóst? Þarna hlýtur að liggja fiskur undir steini!

Þeir sem fylgst hafa með undanfarin misseri og ár vita að fátt fer jafnmikið í taugarnar á stjórnmálamönnunum og það að geta ekki laumast í þessa sjóði almennings og tekið sér lúku til að fjármagna eigin gæluverkefni eða jafnvel til að rétta af hinn eilífa halla á ríkissjóði. Það var loksins á sumarþinginu 2009 að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar tókst að finna leið bakdyramegin að almannasjóðunum: Að spara í ríkisrekstrinum með því að skerða lífeyrisbætur frá Tryggingastofnun ríkisins um jafn mikið og ellilífeyrisþegar fengu úr lífeyrissjóðunum sínum.

 

Þetta varð auðvitað til þess að setja fjárhag þúsunda eldri borgara verulega úr skorðum, en hinir snjöllu pólitíkusar heyrðu ekki ópin frá þeim. Að vísu opnaðist fyrir heyrnina hjá núverandi forsætisráðherra í nokkrar mínútur fyrir kosningarnar 2013 og hann skrifaði ellilífeyrisþegunum frægt bréf með hátíðlegum loforðum um að hætta þessum skerðingum strax og hann kæmist í ríkisstjórn. Þeir bíða enn eftir efndum og eru líklega hættir að vonast eftir að hann standi við gefin loforð.

 

Minnuga rámar í að öðru hverju viðra stjórnmálamennirnir hugmyndir, mjög ómótaðar, um að alveg gráupplagt sé nú fyrir lífeyrissjóði almennings að fjárfesta í \"innviðum\" eins og það er kallað.  \"Innviðir\" þeir sem um er rætt eru hin klassísku verkefni ríkisvaldsins, sem við erum vön að borga með skattpeningunum okkar: Skólar, sjúkrahús, vegir, dvalarheimili, orkuveitur, vatnsveitur o.s.frv.

 

Nú hefur semsagt verið skipaður þriggja manna starfshópur og fær í veganesti fréttatilkynningu frá forsætisráðherra þar sem teiknuð eru upp og máluð dökkum litum \"vandamál\" sem fylgi því að lífeyrissjóðirnir séu svo öflugir og eigi stóran hluta í fyrirtækjum. 

 

Auðvitað er þess ekki getið að hið háa eignarhlutfall þeirra er bundið við skráð félög í kauphöllinni og þau eru ekki mörg. Sjóðirnir eiga ekkert í sjávarútveginum nema í þessu eina skráða fyrirtæki HB Granda, ekkert í orkufyrirtækjunum nema lítilsháttar á Suðurnesjum .... einmitt! Já og skólarnir! Og sjúkrahúsin! Og flugvellirnir! Fullt af \"innviðum\" sem þeir eiga ekkert í!

 

Nú er ráð að bíða og sjá hvort þessi starfshópur um hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífs fá ekki örugglega umbeðnar hugmyndir og skrifi í sína skýrslu til ráðherranna: Að gráupplagt sé nú að sjóðirnir létti eignarhaldi sínu af skráðu fyrirtækjunum og fjárfesti vel og skilmerkilega í \"innviðum\" samfélagsins, já einmitt: Samfélagsins! Allt huggulega samfélagslegt!

 

Þá verður blessuðum ráðherrunum að ósk sinni og þrá: Að opna stóra æð inn í almannasjóðina til að fjármagna allar stórframkvæmdirnar. Svo kemur nýr starfshópur eftir nokkur ár og leggur til einkavæðingu á öllu klabbinu - til ævarandi heilla fyrir, jah, einhverja!  

 

rtá