Sneypuför til bessastaða

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, var niðurlægður á Bessastöðum í dag.

Sennilega hefur enginn forsætisráðherra Íslands farið aðra eins sneypuför á fund forseta lýðveldisins og Sigmundur Davíð í dag.

Þessi dagur markar sess í sögu landsins. Hann verður í minnum hafður fyrir tvennt: Forsætisráðherra mátti  þola algera niðurlægingu og getur engum öðrum kennt um en sjálfum sér. Hann fór til fundar við forseta með vanhugsaða áætlun sem forsetinn gerði hann afturreka með. Hitt sem verður í minnum haft er hversu snaggaralega Ólafur Ragnar brást við og sýndi enn á ný yfirburði sína sem þjóðhöfðingi.

Atburðarás dagsins í dag og að undanförnu leiðir til þess að þjóðin mun kalla eftir áframhaldandi forystu Ólafs Ragnars Grímssonar. Hann verður beðinn- grátbeðinn – af þjóðinni að halda áfram enn eitt kjörtímabilið.

Hann mun fallast á það með þeim rökum að hann geti ekki skilið þjóðina eftir í þeirri þeirri óvissu sem háttsemi Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar hefur valdið.