Skyndikynni eru hættuleg

Ingvi Hrafn Jónsson hitti naglann á höfuðið á Hrafnaþingi fyrir helgina þegar hann líkti sambandi Framsóknarflokksins við kjósendur fyrir síðustu kosningar við skyndikynni.

Gamalreyndi þáttastjórnandinn sat með ungan mann í spjalli á Hrafnaþingi og ræddi um stöðu Framsóknar í komandi kosningum. Ingvi Hrafn benti á að flokkurinn hafi náð ótrúlegu fylgi vorið 2013 eða 24,4% sem er tvöfalt á við það sem eðlilegt er. Hann sagði að digur kosningaloforð flokksins hafi skilað sér með þeim hætti að fólk sem er ekkert Framsóknarfólk hafi efnt til skyndikynna við flokkinn með þessum árangri.

Svo útlistaði Ingvi Hrafn eðli skyndikynna fyrir unga manninum sem hlýddi opinmynntur á þann gamalreynda. Ingvi orðaði það eitthvað á þessa leið: Þegar fólk lendir í þeirri stöðu að lenda í skyndikynnum og vakna upp við vondan draum næsta morgun, þá reynir það að koma sér sem hraðast í burtu. Það gerðist einmitt strax eftir kosningarnar í apríl 2013. Helmingurinn af fylgi Framsóknar hvarf á braut jafn skyndilega og það kom til flokksins. 

Já, satt er það. Skyndikynni eru hættuleg.

 Vonandi hafa kjósendur lært af þessu og láta ekki Framsókn eða önnur framboð plata sig til fylgislags með innantómum loforðum og fagurgala.