Skæðasti sjúkdómur mannssögunnar

"Af hverju eru sjúkdómar eins og mislingar, sem búið var að ná góðum tökum á og stefnt að því að útrýma, farnir að geisa á ný og það í faröldrum," spyr Kristján Gunnarsson heimilislæknir í nýjum pistli sérfræðinga á hringbraut.is og svarar sjálfur: "Það er mjög einfalt. Það er vegna þess að hlutfall bólusettra hefur farið minnkandi."


Hann segir óskiljanlegt að foreldrar barni neiti að horfast í augu við víisndleg rök í þessu máli. Út frá samfélagslegu sjónarmiði megi líkja því við að koma sér undan því að borga skatt að taka ekki þátt í jafn mikilvægri lýðheilsulegri forvörn eins og bólusetningum. Bólusetningar séu ekki einungis hugsaðar sem vörn gegn smitsjúkdómum fyrir einstaklinga, heldur ein sterkasta fyrsta stigs forvörn sem völ sé á til þess að stuðla að bættri lýðheilsu í okkar samfélagi og í heiminum öllum. Í þessu felist ábyrgð foreldra gagnvart sínum börnum og ekki síst gagnvart fæddum og ófæddum börnum allra hinna.


Hann segir minnkandi hlutfall bólusettra megi líklega rekja til ýmissa samsæriskenninga um lyfjarisana og falsaðra vísindagreina um tengsl MMR-bóluefnisins við einhverfu, auk mikillar áherslu á lífrænt ræktað, náttúrúlegt og hinn hreina lífstíl sem á stundum flokki bólusetningar sem eitur?


En vísindin segi sína sögu, skrifar Kristján : "Því er haldið fram að bólusótt hafi herjað á mannkynið frá því árið 10.000 fyrir Krist. Þetta er skæðasti sjúkdómur mannkynssögunnar en talið er að 500 milljónir manna hafi látið í lægra haldi fyrir bólunni. Heimildir herma að um 400 þúsund hafi látist árlega af völdum bólusóttar á 18. öld. Snemma á sjötta áratug 19. aldar er talið að 50 milljónir manna hafi smitast árlega."


Í kjölfar bólusetningarátaks Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) hafi tala smitaðra fallið niður í 10-15 milljónir manna árið 1967 og lækkað hratt eftir það. Síðasta tilfelli bólusóttar hafi verið árið 1979 og 1980 hafi verið tilkynnt að sjúkdómnum hefði verið útrýmt. Nú sé opinberlega vitað um veiruna á tveimur rannsóknarstofum í heiminum, í Bandaríkjunum og í Rússlandi.


Læknirinn skrifar áfram: "Annar smitsjúkdómur sem hefur verið skæður í gegnum söguna er mislingar. Sýkingin var algeng hjá börnum og dró árlega milljónir til dauða á heimsvísu áður en bóluefni kom fram á sjónarsviðið árið 1963. Fyrir tíma bólusetninga bárust mislingar sjaldan til Íslands en þegar það gerðist urðu hér stórir og mannskæðir faraldrar. Tveir stærstu mislingafaraldrar sem vitað er um voru árin 1846 og 1882. Árið 1846 létust um það bil 1.600-2.000  manns úr mislingum (íbúafjöldi var 58.667 í upphafi ársins) og árið 1882 létust um það bil 1.300 manns. Hluti þjóðarinnar var ónæmur eftir faraldurinn 1846.  Stærsti hluti látinna voru börn á aldrinum 0-4 ára og konur á barneignaaldri. Þá eru ekki nefndir aðrir alvarlegir fylgikvillar."


 Kristján segir að frá því að skipulagðar bólusetningar hófust á Íslandi hafi ekki orðið hér faraldrar, en bendir hins vegar á eftirfarandi: "Nú herja mislingar á víða um heim. 176 manns hafa greinst með mislinga í 17 fylkjum Bandaríkjanna í faraldri sem hófst 28. desember sl. í Disneylandi í Kaliforníu. Stóran hluta tilfellanna mátti rekja þangað. Langstærsti hluti smitaðra var ekki bólusettur eða ekki fullnægjandi bólusettur. Yfir 500 manns hafa greinst með mislinga í Þýskalandi síðan í október 2014 og nýverið lést 18 mánaða gamalt barn þar af völdum sjúkdómsins. Tvö mislingatilfelli hafa greinst í Danmörku á þessu ári og 27 í fyrra. Í janúar og febrúar 2015 voru greind 69 mislingatilfelli í Bretlandi. Ástandið er enn verra í vissum hlutum Afríku og Asíu. Á síðasta ári greindust hátt í 20.000 mislingatilfelli í Kirgistan, Bosníu, Rússlandi, Georgíu og Ítalíu."


Pistil Kristjáns er að finna hér.