Sér forseti ASÍ ekki skóginn fyrir trjánum og er seðlabankastjóri í froðusnakki!?

Pistill eftir Ole Anton Bieltvedt

For­seti ASÍ er bráð­vel menntuð kona, m.a. með við­skipta­fræði­próf frá HÍ, líka meistara­gráðu frá Lundi í Sví­þjóð, kann vel að teikna, auk þess, sem hún er marg­reynd á ýmsum sviðum fé­lags- og stjórn­mála, en hún var um ára­bil fram­kvæmda­stjóri Vinstri-grænna.

Reyndar sagði hún sig úr VG 2017, þegar flokks­stjórnin á­kvað að ganga til sam­starfs við Sjálf­stæðis­menn og Fram­sókn, og varpa um leið mörgum sínum helztu stefnu­málum fyrir róða.

Þetta var gott hjá Drífu, en þeim mun verra hjá Katrínu Jakobs­dóttur og öðru VG-for­ustu­liði; það er ekki gott að hafa skýra stefnu í stjórnar­and­stöðu og gleyma henni svo, í stórum dráttum, til að komast í valda­stóla, að miklu leyti til að reka erindi annarra, nefni­lega and­stæðinganna.

Fyrir undir­rituðum var og er þetta hand­ó­nýtt fyrir stjórn­mála­flokk, og for­seti ASÍ sá þetta fyrir, fylgdi sinni sann­færingu og stefnu og yfir­gaf sökkvandi og stefnu­laust fleyið Vinstri-græna. Heil­steypt kona; þetta metur undir­ritaður mikils við for­setann.

Það, sem ég vildi þó aðal­lega fjalla um hér, er fram­ganga Drífu í samninga­málum, og nú­verandi á­herzlur hennar og stefna, sér­stak­lega á grund­velli lífs­kjara­samningsins, sem var undir­ritaður 3. apríl í fyrra.
Þegar lífs­kjara­samningurinn var undir­ritaður, var gengi Banda­ríkja­dals gagnvar krónunni 119. Nú er gengið 144. Gengis­fall krónu gagn­vart Banda­ríkja­dal á þessum tíma 21%. Á sama tíma hefur krónan fallið úr 134 í 157 gagn­vart Evru. 17% fall.

Þetta er auð­vitað heiftar­legt, ekki sízt út af því, að þetta gengis­fall hefur einkum átt sér stað síðustu vikur, undir stjórn - eða öllu heldur stjórn­leysi - nýs seðla­baka­stjóra.

Þó að krónan eigi nú að vera á markaði, er hún svo veik, að það virðist duga, að menn selji krónur fyrir nokkra milljarða eða milljarða tugi og kaupi er­lendan gjald­eyri að sama skapi, til að krónan stein­liggi um 10-15%.

Auð­vitað hefði Seðla­banki, með sinn gjald­eyris­vara­sjóð upp á nær 1.000 milljarða, getað keypt krónur ötul­lega á móti, til að halda genginu stöðugu. En, þetta gerði nýr seðla­banka­stjóri ekki; kippti sér ekki upp við nánast frjálst fall gjald­miðilsins, sem þó er grund­völlur allra verð­mæta, allra tekna og út­gjalda, allra eigna og skulda, í þessu blessaða landi.

Hann mátti þó vita - það gera allir, sem eitt­hvað vita og skilja í peninga- og efna­hags­málum - að a.m.k. helmingurinn af gengis­fallinu myndi koma fram í hækkuðu verð­lagi og vísi­tölum - verð­bólgu - á næstu 3-6 mánuðum. Þessi regla er margs­önnuð hér.

Um nýjan seðla­banka­stjóra má reyndar skjóta því að, að hann sagði í við­tali við Morgun­blaðið í júlí í fyrra, að eigin mynt, eða rétturinn til hennar, væri grund­vallar­hluti af full­veldi hvers lands.

Ef ég hefði ekki vitað, hver þetta sagði, hefði ég talið, að þessi orð hefðu verið höfð eftir ein­hverjum „menningar­vita eða menntunar­spjátrungi“. Hvar er þá full­veldi þeirra 25 þjóða, sem allar hafa sam­einast um Evruna, komið!? Fyrir undir­rituðum hreint froðu­snakk. Full­veldið er ein­mitt undir al­þjóð­legu sam­starfi og því afli, sem það veitir, komið.

En, drífum okkur til baka til Drífu. Í þeirri stefnu og þeim á­herzlum, sem hún hefur verið að boða, fyrir ASÍ, síðustu daga, er ekki minnst einu orði á stöðugt gengi, sem þó er helzti efna­hags­þátturinn til að tryggja stöðugt verð­gildi launa, stöðuga leigu, stöðugan hús­næðis­kostnað, stöðugt verð­lag al­mennt og stöðugar vísi­tölur. Gleymdist þetta hjá for­setanum, eða sér hann það ekki?

Hinn aðal­þátturinn, fyrir fyrir­tækin, sem at­vinnuna veita og launin greiða, svo og fyrir al­menning, vegna fast­eigna- og bíla­kaupa þeirra m.m., er vaxta­kostnaður. Í stöðunni, sem er, ber Seðla­banka að færa hann niður á sama stig og er meðan annarra Vest­rænna þjóða; niður undir núllið! Hvað hindrar? Ein­hver gömul hindur­vitni?

Það er stundum talað um, að menn sjái ekki skóginn fyrir trjánum. Því miður verður að heim­færa þetta upp á for­seta ASÍ og þá stefnu og þær á­herzlur, sem hann stendur fyrir, á þessum við­kvæmu og þýðingar­miklu tímum.

Fyrir undir­rituðum, eru gengi og vextir skógurinn og flest það, sem for­setinn setur á oddinn, er fyrir honum ein­stök tré.

Höfundur er al­þjóð­legur kaup­sýslu­maður og stjórn­mála­rýnir