Raunir valhallar og leitin að “macron”

    Raunir íhaldsins í Reykjavík halda stöðugt áfram að vaxa og versna. Nú berast óljósar fréttir af að ætlunin sé að flokksmenn greiði atkvæði um hvernig eigi að velja oddvita fyrir framboði flokksins til borgarstjórnar á næsta vori. Ekki er seinna vænna.

   

    Þegar leitað er upplýsinga um hvað standi til, á vefsíðu flokksins, XD.is, er engar upplýsingar að finna. Ef valin er undirsíðan Vörður (sem af einhverjum óútskýranlegum ástæðum var sameinaður fulltrúaráði flokksins fyrir nokkrum misserum) eru skilaboðin eins einföld og mögulegt er: „Engar færslur til að sýna“!  Einhverjir Valhallarliðar hafa undanfarna daga og vikur þó reynt að sýna lífsmark og fleytt inn í umræðuna nokkrum nöfnum til að velta fyrir sér. Um leið grasserar umræðan um hver eigi að leiða eða geti leitt framboðið til borgarstjórnarinnar, orðið borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins. Það lýsir líklega best hvílíkt mannval er í boði að einhverjum þykir vænlegast að draga fram sjálfan fyrrverandi borgarstjórann, fyrrverandi formanninn, fyrrverandi forsætisráðherrann, fyrrverandi seðlabankastjórann, fyrrverandi forsetaframbjóðandann, fyrrverandi leiðtogann og núverandi ritstjórann Davíð Oddsson.

   

    Kjörsókn hefur minnkað á síðustu árum, bæði í kosningunum sjálfum en sérstaklega í prófkjörum. Enginn sómakær maður gefur kost á sér í forystu fyrr en eftir miklar fortölur og þá er ekki völ á neinum heillandi leiðtoga. Örlítill vonarneisti kviknaði eftir forsetakosningarnar í Frakklandi:  Sjáið, þarna er einn sem skapar stemmingu og fjör í kringum sig, það geislar af honum, finnum einn svoleiðis fyrir okkur! Leitin hófst. Hún stendur enn. Kjósendur horfa til Dags og hinna í kringum hann. Það er óneitanlega meira líf í mislitu málningarrúllunum hans heldur en í grámanum í kringum Valhöll í Reykjavík.

   

    Kannski fer fyrir íhaldinu í Reykjavík eins og stærsta launþegafélagi landsins, sem lengi var reyndar spyrt saman við íhaldið:  Áhugaleysi félagsmanna fyrir leiðtogavali var svo algjört að þeir létu það eftir 10% herskárra félagsmanna að velja formann sem virðist ekki hafa áhuga á öðru en að vinna gegn hagsmunum félagsmanna. Á meðan forystan í Valhöll kæfir allt líf í kringum flokkinn lognast hann smám saman útaf, hægt en örugglega, og stefnir óðfluga niður fyrir 20% fylgi í Reykjavík.

   

    Enginn „Macron“ kemur og bjargar þeim sem ekki vilja láta bjargast. Enn er slökkt í Valhöll.

   

    Rtá