Prófaði fjallahlaup og setti heimsmet

Fjallahlaup eru að verða nýjasta útivistaræði landsmanna, því ekki er nóg með að sífellt fleiri landsmenn gangi reglulega á fjöll og firnindi heldur eru æ fleiri farnir að leggja fyrir sig langhlaup út um öræfi og endaleysur íslenskra óbyggða. Björn Margeirsson, margreyndur hlaupari og afreksmaður á því sviði, sem var gestur Sigmundar Ernis í heilsu- og útivistarþættinum Lífsstíl á Hringbraut í gærkvöld sagði þar að enda þótt fjallahlaup reki sögu sína allt aftur til áranna í kringum 1980 hafi þau ekki orðið að almenningsgrein fyrr en við dagsbrún nýrrar aldar. Frá aldamótum hafi orðið sprenging á þessu sviði og hvert skipulagða fjallahlaupið reki nú hvert annað frá vori til haustmánaða.


Sjálfur á Björn að baki margan sigurinn á hlaupabrautum frjálsíþróttavallanna. Eins og jafnan þegar aldur færist yfir hjá hlaupagörpum - og snerpuna þver - þá taka við lengri og hægari hlaup. Og Björn prófaði að hlaupa Laugavegshlaupið fyrir fáum árum - og það fór eins og við var að búast hjá þessum strák sem hefur hlaupið allar götur frá því hann var patti á bænum Mælifellsá í Skagafirði að hann bar sigur úr býtum í hlaupinu a tarna milli Landmannalauga og Þórsmerkur - og það sem meira var; hann setti Íslandsmet - og þar með náttúrlerga heimsmet í Laugavegshlaupi á tímanum 4 klukkustindir og 19 mínútur, en vegalengdin er kunnari sem þriggja til fjögurra daga gönguleið.


Lífsstíll var frumsýndur á dagskrá Hringbrautar klukkan 21.00 í gærkvöld og þar komu ekki aðeins hlaup við sögu, heldur fjallgöngur, hjólreiðar og sjálft lífríki Íslands svo fátt eitt sé nefnt af fjölbreyttu efni þáttarins.