Pólitískt grey

Klúður Theresu May er trúlega versti afleikur i breskum stjórnmálum í áratugi. Hún var með flokk sinn í þægilegri stöðu og þurfti ekki að horfast í augu við kosningar fyrr en eftir þrjú ár. Þá fékk hún þá afleitu hugmynd að rjúfa þing og efna til kosninga því hún ofmat styrk Íhaldsflokksins og eigin getu.

Theresa May áttaði sig ekki á því að hún er afleitur stjórnmálamaður sem fékk völdin upp í hendur án þess að leiða flokk sinn gegnum kosningar.

Theresa May dregur ekki að fylgi, sættir engin sjónarmið og er alls ekki líkleg til að geta unnið vel úr Brexit gönuhlaupi Breta. Hún hélt að kosningar nú færðu henni styrkari stöðu en það fór á þveröfugan veg.

Nú hefur hún gengisfellt sjálfa sig, flokkurinn hefur tapað meirihluta í þinginu, hún neitar að fara frá og ætlar að sitja áfram í minnihlutastjórn með hluta þingmanna sinn ósátta.

Theresa May þarf að treysta á Lýðræðislega sambandsflokkinn (DPU) á Írlandi sem er þekktur fyrir harðar öfgahægriskoðanir, langt til hægri við Íhaldsflokkinn. Það er vonlaus staða sem Theresa May hefur komið flokki sínum og breskum stjórnmálum í. Alla vega nú um stundir.

Fyrrum ráðherra Íhaldsflokksins talaði um “dauðagöngu” Theresu May sem gæti ekki endað með öðru en því að hún hrökklaðist frá. Margt bendir til þess að kosið verði næsta vetur og að þá hafi flokkur hennar skipt um leiðtoga.

Flestum ber saman um að Theresu May hafi verið hafnað í kosningunum. Samt segir hún ekki af sér. Þráast við og neitar að stíga niður úr stóli forsætisráðherra. Ætlar að reyna að hanga á þeim valdastóli enn um sinn í minnihlutastjórn.

Óvíða er henni sýnd samúð eftir þetta og fáir reyna að skilja þrásetu hennar við völd, eftir að búið er að hafna henni og eðlilegt væri að hún stigi af sviðinu.

Á einum stað er henni þó sýndur skilningur og viss samúð. Sú afstaða birtist í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um síðustu helgi. Höfundur bréfsins telur algeran óþarfa að hún víki og reynir að túlka hrakfarir hennar sem sigur með einhverjum óskiljanlegum hætti.

Höfundurinn virðist finna til vissrar meðvirkni með Theresu May. Sjálfur tapaði hann kosningum vorið 2003 og missti fylgi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu úr tæpum 40% niður í 32,7% sem leiddi til þess að formaður Framsóknarflokksins hafði í hendi sér að taka við embætti forsætisráðherra.

Fékk tilboð frá þáverandi stjórnarandstöðu um það. En Davíð Oddsson mátti ekki til þess hugsa að hrökklast úr forsætisráðuneytinu strax og samdi um framlengingu í 15 mánuði en þá tók Halldór við.

Þessi skipan reyndist ekki vel því í þessari framlengingu kom svokallað fjölmiðlafrumvarp fram og stórskaðaði ríkisstjórnina og forystumenn hennar og varpaði ævarandi skugga á feril fráfarandi forsætisráðherra.

Það getur verið dýrt að hanga of lengi á valdastólum. Einkum þegar hin raunverulegu völd eru ekki lengur í hendi. Það reyndi Davíð vorið 2004 og það á Theresa May eftir að upplifa í Bretlandi.

Vilji menn bregða fyrir sig strákslegum orðaleikjum, þá er freistandi að segja sem svo:

Pólitískt fley Theresu May er strandað og liðast nú sundur í brimgarðinum.

Theresa May verður héðan í frá ekkert annað en pólitískt grey.

rtá.