Pólitísk endurvinnsla í borginni

Frá degi til dags í Fréttablaðinu greinir frá því að flestir gömlu flokkanna séu í öngum sínum af kvíða vegna borgarstjórnarkosninga eftir eitt ár.

Þegar hefur komið fram að einhverjum húmoristum hefur dottið í hug að fleyta flökkusögu um að einhverjir vilji fá Sigmund Davíð til að leiða lista flokksins í Reykjavík. Konurnar sem flokkurinn fékk kjörnar í síðustu kosningum eru löngu gleymdar og alveg rúnar trausti. Því er einsýnt að þær muni ekki bjóða sig fram að nýju.

Í dálki Fréttablaðsins er því einnig haldið fram að VG verði að skipta út hjá sér en þá bregður svo við að Álfheiður Ingadóttir telur að hún sé rétta manneskjan til að leiða lista flokksins í borginni. Hún mun vera frekar ein um þá skoðun. Álfheiður datt út af Alþingi vorið 2013. Flestir hafa gert ráð fyrir því að hún hafi látið af pólitísku brölti en það er ekki víst, ef marka má framangreint.

Þá er nefnt að innan Sjálfstæðisflokksins geri flestir sér ljóst að allir núverandi borgarfulltrúar flokksins - fjórir að tölu - verði að víkja enda hefur þeim ekki gengið neitt að fóta sig í stjórnarandstöðunni. Leitin að nýjum leiðtoga í borginni hefur engan árangur borið og gætir vaxandi streitu út af því meðal margra flokksmanna. Vegna þessa ástands berast böndin æ meira að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi borgarstjóra.

Komi til þess að gömlu flokkarnir þrír fari allir í að endurvinna pólitíska fallista til að leiða flokkanna, þá yrði það að sönnu saga til næsta bæjar.

Einhverjir munu þá líta á það sem merki um pólitíska niðurlægingu. 

En Dagur mun brosa breitt og fá sér nýjan borgarstjórafrakka.

 

-rtá.