Pálmi ákvað að enda líf sitt: „ég hafði látið taka af mér allt og loka á allt “

Pálmi Jóhannsson er þrjátíu og tveggja ára gamall spilafíkill. Hann fór í sína fyrstu meðferð aðeins tuttugu og tveggja ára gamall þegar líf hann var orðin heltekin af fjárhættuspilum.

„Ég fann flóttaleið frá raunveruleikanum við spilaborðið. Þetta hafði allt byrjað með áfengi en svo var það ekki þannig lengur,“ segir Pálmi sem deildi reynslu sinni á síðunni Það er von.

„Ég er spilafíkill, ég er alkóhólisti, ég er fíkill. Það skiptir ekki máli hvað það er því ég er með fíknisjúkdóm. Allt sem mér fannst gott, gat ég ekki hægt að nota og hvað þá stoppað. Ef ég stoppaði, þá var það af því að ég gat ekki meira. Einhvern veginn tókst mér með harki í öll skiptin að rísa upp úr helju þjáningar og vonleysis. Ég byggði mig upp með því góða og tifaði á meðan í undirmeðvitundinni eins og tímasprengja sem á endanum sprakk eins og kjarnorkusprengja.“

Átti bjarta framtíð

Pálmi er í dag edrú og er hættur notkun vímuefna og hættur að stunda fjárhættuspil. Segist hann rekja rótina að vandamálinu til æskunnar.

„Ég var rólegur og góður strákur sem átti bjarta framtíð. En það breyttist fljótt þar sem ég upplifði kvíða vegna drykkju foreldra minna. Af einhverri ástæðu varð ég fórnarlamb eineltis alla daga, allan ársins hring. Ég fékk ekki að læra eins og hin börnin og þarna breyttist ég, ég staðnaði og greindist með adhd.“

Pálmi fór að einangra sig og fann ástríðu sína liggja í tölvuleikjum. Honum fannst hann ekki lengur eiga heima með hinu fólkinu í lífinu sjálfur.

„Ég var hættur að geta tjáð mig og samskipti komu mér oftast í vandræði eða í vanlíðan. Sambönd við kærustur og fólk fór alveg út um gluggann. Ég var orðinn spilafíkill. Þráði bara að vinna og koma mér í burtu,“ segir Pálmi sem segist hafa notað öll þau tækifæri sem gáfust til þess að spila.

Vildi bara komast í burtu

„Allir aurar fóru í tilraunir sem enduðu með dýpsta þungastað sem ég hef fundið fyrir. Myrkrið, tómið, uppgjöf á lífi, nefndu það. Ég endaði alltaf í þroti og deyfði mig með öllu sem ég komst í og særði alla. Ég lærði aldrei. Ég hugsaði „nú hættirðu“ og fylltist bjartsýni en sveik sjálfan mig alltaf. Ég þráði alltaf jafn mikið að þurfa ekki að feisa neitt og vildi bara fjárhagsfrelsi til að komast í burtu.“

Það var á síðasta ári sem Pálmi gafst upp á líferni sínu en hann upplifði vonleysi vegna veikinda sinna.

„Ég lýsi þessu í dag eins og ég hafi verið farþegi í eigin líkama. Ég var farin að reyna að fela drykkjuna og fjárhættuspilin fyrir kærustu og fjölskyldu en ég átti ekki séns. Sjálfkrafa var ég kominn með óreglufólk í kringum mig, fólk sem sveifst einskis. Þegar ég fékk peninga þá reyndi ég og reyndi að stoppa mig frá því að spila en átti ekki séns.“

Þrátt fyrir að Pálmi hafi í örfá skipti komið út í miklum gróða þá náði það aldrei að stöðva hann. Hann var orðinn stjórnlaus.

„Þegar línan mín í lottóinu var einni tölu frá því að vinna þann stóra þá hvarf ég. Þetta var búið. Vanlíðanin, andvökunæturnar, allt í einu orðinn þunglyndis og kvíðasjúklingur inni á geðdeild. Mér langaði ekki að lifa lengur, mér var orðið sama um allt, meira að segja fjölskylduna mína. Ég slökkti á símanum og sat lengi einn í felum úti í náttúrunni og snjónum. Ég vildi bara verða úti og hverfa.“

Stuttu síðar áskotnaðist Pálma smá aur og fór hann þá á sína endastöð. Það var staður sem hann sjálfur hafði dæmt. Spilakassarnir.

„Ég hafði látið taka af mér allt og loka á allt svo ég gæti ekki spilað eða drukkið en það dugði ekki til. Ég hafði tapað, ég gaf skít í allt og drakk mig í óminni. Ég fór illa með sjálfan mig og meiddi fólkið mitt ólýsanlega mikið.

Ákvað að enda líf sitt

Pálmi tók ákvörðun um að enda líf sitt en til allrar hamingju gerðist það ekki.

„Ég er svo þakklátur að mér tókst að vera gunga, meira að segja í blackouti. Þegar ég vaknaði fann ég ekki fyrir þynnku. Aðeins sársauka í líkamanum. Hnúturinn sem ég var búinn að vera með í svo langan tíma í hausnum var farinn, æxlið bakkus. Ég fór á hnén og bað, uppgjöfin kom. Þessi andlega vakning sem ég hafði þráð svo lengi að fá.“

Í dag lifir Pálmi lífi sínu einn dag í einu. Hann stundar tólf spora prógramm og velur það að lifa ekki í þjáningu og stjórnsemi.

„Ég þarf ekki lengur að lifa í þessu leikriti. Í dag geri ég mitt. Ég á líf sem ég var að rembast við að fá í neyslu. Það eina sem þurfti var að gefast upp. Ég átti aldrei séns því ég er með sjúkdóm, ofnæmi, algjört óþol. Ég á fimm mánaða edrúlíf sem ég hef aldrei fengið að upplifa áður. Einhverskonar frelsis tilfinning sem ég kastaði alltaf í burtu ef ég sá glitta í hana áður. Ég hafði getu og vilja til þess að segja bless við það sem var að drepa mig en til þess þarf ég að minna mig á það að hverjum degi.“

Segist Pálmi stíga inn í óttann á hverjum degi og neitar hann að flýja sjálfan sig og sín veikindi.

„En það krefst vinnu í sjálfum sér, því trú án verka er dauð. Það er veikt fólk alls staðar. Það er von, við náum bata.“