Óboðleg könnun fréttablaðsins

Fréttablaðið birti í vikunni skoðanakönnun vegna borgarstjórnarkosninga í Reykjavík næsta vor sem er svo lítil í sniðum að ekki er hægt að taka hana alvarlega. Síst af öllu þann hluta hennar sem snýr að hugsanlegum frambjóðanda til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins. Svörun er svo klén að ekki er boðlegt að birta “niðurstöður” í blaðinu eins og um merkilega alvörukönnun með alvörusvörun sé að ræða.

Engu að síður eru dregnar stórar ályktanir af þessu dag eftir dag. Aðrir fjölmiðlar hafa tekið þetta gagnrýnislaust upp. Getur það verið að menn velti alls ekki fyrir sér þeim tölum sem liggja til grundvallar?

Lítum á þær:

Þegar spurt var um það hver ætti að leiða lista Sjálfstæðisflokksins, kom fram að “afar fáir” eða einungis 15% þeirra sem spurðir voru hafi svarað. Það náðist í 791 og 15% þeirra svöruðu. Það jafngildir því að 119 manns hafi svarað.

Flestir nefndu Pál Magnússon eða 22%. Þannig nefndu 26 manns Pál Magnússon. Það gefur Fréttablaðinu tilefni til að birta tvær myndir af honum í blaðinu vegna þessarar grínkönnunar, þar af aðra á forsíðu!

Nokkur önnur nöfn eru nefnd. Þar á meðal kom fram að 4,5% vildu Kjartan Magnússon sem þýðir að 5 manns hafa nefnt hann. Bullið nær samt hámarki þegar þess er getið að 0,8% hafi bent á Eyþór Arnalds hluthafa í Morgunblaðinu. Einn maður benti sem sé á Eyþór eða 0,8% af 119 sem svöruðu.

Dellukannanir af þessu tagi valda einungis skaða og grafa undan faglegum alvörukönnunum eins og unnar eru af Gallup og Félagsvísindastofnun HÍ.

Í dálknum “Frá degi til dags” í Fréttablaðinu birtist m.a. þetta eftir Jón Hákon Halldórsson:

“Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík stendur með pálmann í höndunum nú þegar kosningavetur fer senn í hönd. Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins fengi hann þriðjung atkvæða..................”

Þessi ágæti blaðamaður dregur miklar ályktanir af ómarktækri skoðanakönnun.

Auk þess verður ekki séð að Sjálfstæðisflokkurinn stæði með pálmann í höndunum jafnvel þó hann næði þriðjungi atkvæða. Hann yrði áfram í stjórnarandstöðu og vinstri meirihluti héldi völdum, væntanlega undir forystu Dags B. Eggertssonar. Á árum áður hefðu flokksmenn ekki talið það viðunandi niðurstöðu.

Sjálfstæðisflokkurinn stenur áfram ráðþrota og leiðtogalaus í borginni. Engin frambærileg hugmynd hefur enn komið fram um leiðtoga. Ekki verður séð að  flokknum takist að galdra fram bjargvætt því tími hinna frambærilegu í Sjálfstæðisflokknum er liðinn.

 

Rtá.