Nýr skuggastjórnandi?

Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR þykir hafa hlaupið á sig þegar hún gaf til kynna í viðtali við RÚV í dag að hún ætlaðist til þess að fulltrúar VR í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna andmæltu fyrirhuguðum arðgreiðslum vátryggingarfélaga. Þó hún hafi ekki lagaheimild til afskipta þá sagði hún í fréttinni að hún “ætlaðist til að á gagnrýni hennar sé hlustað.” Þeim orðum var greinilega beint til stjórnarmanna VR í lífeyrissjóðnum en þeir eru 4 talsins.

Mbl.is spurði Ástu Rut Jónasdóttur, formann Lífeyrissjóðs verslunarmanna og fulltrúa VR í stjórn sjóðsins, hvort hún hún teldi orð Ólafíu tilburði til skuggastjórnunar. Hún taldi svo vera og sagði:

“Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur þegar komið sínum sjónarmiðum á framfæri við stjórn VÍS og við þurfum ekki frekari leiðbeiningar varðandi það.” Ásta Rut sagði ennfremur, skv. frétt Mbl.is:

“Ummæli formanns VR eru um margt áhugaverð í ljósi þess að í leiðbeiningum um góða stjórnarhætti kemur fram að stjórnarmenn eigi að taka sjálfstæðar ákvarðanir í hverju máli fyrir sig enda eiga þeir ekki að gæta hagsmuna þeirra aðila sem studdu þá til stjórnarsetu.”  Þá benti Ásta Rut á að töluverð áhersla hafi verið lögð á bætta stjórnarhætti á síðustu árum og þá m.a. til þess að koma í veg fyrir skuggastjórnun. Ásta Rut nefndi einnig að væntanlega yrði lítil ánægja með það ef atvinnurekendur eða fjármálaráðherra myndu segja þeim sem þeir hafa stutt í stjórnir lífeyrissjóða fyrir verkum. 

Eins og kunnugt er skipar fjármálaráðherra helminginn af nokkrum stjórnum lífeyrissjóða, þar á meðal í stjórn LSR sem er stærsti lífeyrissjóður landsins.

Skuggastjórnun hefur ekki verið mikið til umræðu á síðari árum en var talin áberandi fyrir hrun. Meðal þeirra helstu sem þá voru taldir skuggastjórnendur eru Jón Ásgeir Jóhannesson og Ólafur Ólafsson.