Nýr formaður getur ekki verið úr framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins

Yfirlýsingar Brynjars Níelssonar, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, undanfarna daga vekja athygli og fá menn til að rýna í ástandið í innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins. Brynjar sat á þing fyrir flokkinn í 9 ár, er nú fyrsti varaþingmaður hans í Reykjavík og var aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra þar til hann lét af völdum fyrir skemmstu. Hann er vel tengdur innan flokksins, þekkir alla, talar við marga flokksmenn og veit hvað klukkan slær. Full ástæða er því til að taka viðvaranir hans alvarlega þegar hann lýsir mikilli ólgu innan flokksins og óttast klofning hans ef forystan tekur sig ekki á og bindur enda á eitrað samstarf við sósíalistana í vinstri grænum, en síðustu 6 árin hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið burðarás í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna.

Brynjar fjallar um þessi mál í hlaðvarpi DV í dag og var einnig í viðtölum við fjölmiðla í vikunni. Í einu þeirra var hann spurður hvort nauðsynlegt sé að skipta um formann í Sjálfstæðisflokknum en síðasta skoðanakönnun sem hefur verið birt mælir flokkinn með stuðning 16.1 prósents kjósenda, sem er lakasta mæling sem flokkurinn hefur fengið frá upphafi. Hann svaraði því þannig að þá væri æskilegt að finna formann sem væri ekki í núverandi forystusveit flokksins: „Ég er með marga í huga en þeir eru ekki allir mjög áberandi í flokknum í dag. Ég held að það væri ágætt að taka einhvern sem er ekki í framvarðasveitinni...“

Þetta er mjög athyglisvert. Hvað er Brynjar að segja? Hvaða fólk er hann með í huga og hvaða fólki er hann að hafna?

Byrjum á þeim sem hann hafnar með þessari yfirlýsingu: Ef Bjarni Benediktsson víkur lítur Brynjar ekki svo á að varaformaðurinn skuli taka við, Þórdís Korbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. Ekki heldur aðrir ráðherrar flokksins, eða forseti Alþingis eða formaður þingflokks sjálfstæðismanna, og hvað þá aðrir kjörnir fulltrúar flokksins.

Hverjir eru þeir flokksmenn, sem eru ekki áberandi í flokknum núna, en hafa burði til að taka við hinu vandasama hlutverki sem er formennska í einum af stærstu stjórnmálaflokkum landsins? Unnt er að benda á nöfn manna sem gegna forystuhlutverkum í atvinnulífinu en fæstir þeirra ljá máls á því að víkja úr öruggum forstjórastöðum til að hefja baráttu á vígvelli stjórnmálanna.

Mögulega væri samt hægt að finna frambærilegan hugsjónamann í þeirra hópi sem væri tilbúinn að fórna sér fyrir flokkinn. Þá gæti Brynjar einnig haft í huga flokksmenn, sem eru ekki eins áberandi og þeir voru áður. Sumir þeirra hafa stigið fram og krafist breytinga eins og hann sjálfur og Elliði Vignisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, en hann hefur oft verið orðaður við æðstu forystu í Sjálfstæðisflokknum. Ef til vill blundar bæði í Brynjari og Elliða sá draumur að til þeirra verði leitað og á þá verði skorað að taka við forystu í flokknum og freista þess að rífa fylgið upp á þeim neyðartímum sem nú ríkja þar á bæ. Þeir eru báðir á góðum aldri til að takast á hendur stór hlutverk, Brynjar er 62 ára og Elliði 54 ára. Lífsreyndir menn en ekki of gamlir.

Því verður varla trúað að Brynjar hafi verið með í huga fyrrum vonarstjörnur í flokknum sem nú eru týndar og tröllum gefnar. Sigurður Kári Kristjánsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Illugi Gunnarsson, sem öll áttu sæti á Alþingi, hurfu af vettvangi stjórnmálanna án þess að ná þeim slagkrafti sem reiknað var með og fáir sakna þeirra í dag.

Ónefndur er sjálfstæðismaður úr atvinnulífinu sem var virkur í starfi flokksins á yngri árum en hefur haslað sér völl með ýmsum hætti í viðskiptum og margháttuðu frumkvöðlastarfi. Hér er um að ræða doktor Þór Sigfússon, forstjóra Sjávarklasans. Hann er menntaður hagfræðingur frá virtum háskóla í Bandaríkjunum og hlaut síðar doktorsnafnbót við Háskóla Íslands. Þór var virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins á yngri árum, formaður Heimdallar og framkvæmdastjóri Sambands ungra sjálfstæðismanna. Starfaði um tíma sem ráðgjafi í fjármálaráðuneytinu, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Norræna fjárfestingarbankanum, framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, forstjóri Sjóvár og formaður Samtaka atvinnulífsins. Árið 2011 stofnaði hann Sjávarklasann hf. í Reykjavík og hefur auk þess komið að margvíslegri annarri nýsköpun. Þór er 58 ára fjölskyldumaður.

Þarna er um að ræða glæsilegan sjálfstæðismann úr atvinnulífinu sem er ekki áberandi í flokknum um þessar mundir. Hann hefur hins vegar allt til að bera sem þarf til öflugrar formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Hitt er svo annað mál að við vitum ekkert um fyrirætlanir Þórs Sigfússonar.

- Ólafur Arnarson