Nýjasta æði landans er að ná áttum

Íslendingar eru orðnir miklu opnari fyrir andlegum málefnum heldur en var hér fyrr á tíð, segir Ásdís Olsen hjá Hamingjuhúsinu í nýjasta þætti Lífsstíls á sjónvarpsstöðinni Hringbraut en hún hefur leiðbeint einstaklingum og fyrirtækjahópum við að ná áttum í erli dagsins, en námskeið hennar í núvitund (e. mindfulness) hafa notið mikill og aukinna vinsælda á síðustu misserum. "Það er einfaldlega fullt á öll námskeið," segir hún og greinir þá breytingu á þjóðinni eftir hrun að eintóm efnishyggja hafi vikið fyrir innri málefnum fólks; það sé langtum ófeimnara en áður að kynnast andlegum málefnum, svo sem alls konar hugleiðslu sem kenni því að staldra við "og vera með athyglina hér og nú," eins og Ásdís lýsir mindfulness sem er samheiti yfir margskonar leiðir til að skerpa á einbeitingu hugans og tengjast betur augnablikinu í lífinu í stað þess að æða áfram án þess að taka eftir líðandi stundu. Núvitund sé ein tegund mindfulness og felist kannski fyrst og síðast í því "að vera hjá sér ogana ekki fram úr sér."


Æ fleiri fyrirtæki nota mindfulness, sem gæti útleggst sem hugarfró á íslensku, til að efla starfsorku inni á vinnustöðum. Ásdís segir íslensk fyrirtæki vera að vakna af værum blundi í þessum efnum, enda efli mindfulness skapandi hugsun að miklum mun - og þar með framleiðni.


En hverju hefur þetta breytt fyrir hana sjálfa? "Jú, svo að segja öllu," segir hún blátt áfram. "Ég var árum saman uppfull af ranghugmyndum og óþarfa neikvæðum pælingum sem skiluðu mér engu öðru en hugarangist og leiða. Mindfulness hreinsar hugann og fyllir hann nýrri orku," segir Ásdís um þetta nýja æði Íslendinga sem þó hefur verið iðkað á fjarlægum slóðum í árþúsundir á meðan Íslendingar spunnu lopann undir torfþökum.


Hægt er að nálgast klippur úr þættinum hér neðar á forsíðunni á hringbraut.is, svo og þáttinn í heild sinni undir sjónvarpsflipanum.