Gæði hráefnis í fyrirrúmi

Landlæknisembættið hefur sent frá sér nýjar ráðleggingar um mataræði sem unnar eru af vísindafólki á sviði næringarfræði og fleiri tengdra greina. Þar er áhersla lögð á að neytendur fylgist vel með gæðum þess hráefnis sem þeir kaupa til matargerðar, en ferskleiki og uppruni skiptir þar miklu máli. Bent er á að eftir því sem matvara er minna unnin eru meiri líkur á því að hún sé holl og næringarrík. Raunar er hægt að segja að eftir því sem matvara er meira unnin er líklegra að hún sé rýrari að þeim efnum sem líkaminn þarf helst og mest á að halda. Ferskvara, hvort heldur er fiskur, kjöt eða grænmeti er enn sem fyrr sá matur sem gagnast fólki best - og eftir því sem vísindunum fleygir fram hefur fleiri stoðum verið rennt undir þessa kenningu. Þess vegna er vert að skoða vel hvað stendur utan á þeim pakkningum sem geyma matvöruna sem keypt er út úr búð - og má hér fullyrða að eftir því sem innihaldslýsingin er styttri þeim mun betri eru kaupin fyrir líkama og sál.