Misráðið að mynda ríkisstjórn með sjálfstæðisflokknum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir viðurkennir að það hafi verið misráðið hjá henni að mynda ríkisstjórn með Geir Haarde vorið 2007.
Þetta kemur fram í opinskáu viðtali við hana sem birt er í DV.
 
Hún segir að vandinn sé sá að Sjálfstæðisflokkurinn sé \"kerfisflokkur\" sem vilji engu breyta enda hafi hann byggt kerfið upp og eigi það ásamt Framsóknarflokknum.
 
Ingibjörg Sólrún talar vel um Geir Haarde og hélt að Sjálfstæðisflokkurinn yrði samstarfshæfur eftir að hann tók við formennsku og Davíð Oddsson hætti.
Það mat voru hennar mistök. Eðli flokksins breyttist ekki nógu mikið og hann hélt áfram að hamla gegn umbótum. Flokkurinn stóð áfram sem fastast á bremsunni og hamlaði gegn nauðsynlegum kerfisbreytingum.
 
Ósköp hljómar þetta kunnuglega! Er Sjálfstæðisflokkurinn ekki enn á sama stað að hamla gegn umbótum og kerfisbreytingum?
 
Hrunið reið svo yfir í valdatíð Geirs og Ingibjargar Sólrúnar, sextán mánuðum eftir myndun ríkisstjórnar þeirra.
 
Nú má velta því fyrir sér hvort hruninu hefði verið afstýrt ef önnur ríkisstjórn hefði verið mynduð.
 
Í raun og veru voru þrír kostir mögulegir:
 
Sjálfstæðisflokkur ásamt Framsókn og Frjálslyndum. Hefði haft 36 þingmenn á bak við sig. Ekki þarf að gera ráð fyrir því að slík stjórn hefði bjargað miklu.
 
Við vitum hvernig fór fyrir stjórn Geirs og Ingibjargar sem hafði þó 43 þingmenn á bak við sig. Sá þingstyrkur hjálpaði ekkert.
 
Unnt hefði verið að mynda meirihlutastjórn VG og Sjálfstæðisflokks. Hefði notið stuðnings 34 þingmanna. Ætla má að forysta VG hefði vaknað fyrr af Þyrnirósarsvefninum og til dæmis ýtt við þeim sem sváfu á verðinum í Seðlabanka Íslands og hjá FME.
 
Með VG í valdastöðu árið 2008 má ætla að Hrunið hefði ekki leikið þjóðina svona grátt.
 
Og þá má einnig gera því skóna að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hefði aldrei orðið til. Það munar um minna.
 
RTÁ