Marteinn mosdal mættur

Flestir muna sennilega eftir þeim skrautlega karakter Marteini Mosdal sem Stöð 2 lét búa til og sýndi við góðan orðstír um tíma.

Marteinn var tákngervingur afturhalds og þröngsýni. Hann lagði jafnan til að ekki væri verið að flækja lífið með frjálsri samkeppni. Hann aðhylltist opinber afskipti af öllu og var t.d. mótfallinn því að verið væri að framleiða mismunandi gosdrykki hjá einkafyrirtækjum úti í bæ: “Það á bara að vera með eina gosdrykkjartegund – RÍKISLÍMONAÐI”, sagði Marteinn Mosdal og lagði ríka áherslu á orð sín með því að veifa höndum og halda putta á lofti.

Ýmsum stóð ógn af Mosdal, einkum litlum börnum, ekki síst þegar hann lauk máli sínu með þungri áherslu og sagði: “Ég kem alltaf aftur!”

Náttfara kom Marteinn Mosdal í hug þegar hann heyrði Pál Gunnar Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, lýsa þeirri skoðun sinni í vikunni að til greina kæmi að fara út í opinbera verðákvörðun á bensíni og öðru eldsneyti sem olíufélögin á Íslandi selja í harðri samkeppni. Ljóst er að yfirmenn opinberra eftirlitsstofnana hér á landi eru á góðri leið með að tapa sér í taumlausri forræðishyggju og löngun til opinberrar íhlutunar á sem flestum sviðum.

Nýútkomin skýrsla Samkeppniseftirlitsins um eldsneytismarkaðinn er lýsandi dæmi um þetta. Í þeirri skýrslu rekst hvað á annars horn. Hún er dæmi um löngun eftirlitsiðnaðarins til íhlutunar langt út fyrir það sem kallast getur meðalhóf. Meginniðurstaða skýrslu þeirra, eftir 30 mánaða vinnu, er að eldsneytisverð til almennings á Íslandi sé 14 til 18 krónum hærra pr. líter en í Bretlandi. Ekki er mikil sanngirni í slíkum samanburði þegar þess er gætt að Bretar eru nær 200 sinnum sinnum fleiri en Íslendingar og því hlýtur slíkur risamarkaður að njóta miklu betra innkaupsverðs vegna magns en við hér í fásinninu norður á hjara veraldar. Eitthvað hlýtur líka að vera dýrara að flytja eldsneytið hingar úr Norðursjónum en til Bretlandseyja. Samanburður af þessu tagi er því marklaus.

Opinber verðstýring toppar samt allt sem enn hefur heyrst frá örtvaxandi eftirlitsiðnaði á Íslandi. Megum við þá ekki eins búast við því að Samkeppniseftirlitið fari að ákvarða fyrir okkur verð á matvöru og öðrum vörum samhliða eldsneytisverði? Páll Gunnar getur þá sent frá sér í byrjun hverrar viku verðlista yfir helstu nauðsynjar landsmanna:

“Opinbera ríkisverðið í viku 44. er sem hér segir: Líter af mjólk kr. 102, kg af kjúklingabringum 699 kr., líter af 95 oktana bensíni 201 kr., hálfur líter af kóki (í plasti) kr. 79, pakki af Camel (án fílters) 517 kr.  Síríus súkkulaði er bannað þessa vikuna. Annað óbreytt frá ákvörðun fyrir viku 43.”

Marteinn Mosdal er afturgenginn. RÍKISLÍMONAÐIÐ er handan við hornið. “Ég kem alltaf aftur!\"