Manns gaman

Konungs­bók Eddu­kvæða er ger­semi og þar er geymdur gim­steinn. Í Háva­málum er að finna lífs­speki – hvers­dags­legar ráð­leggingar og há­speki. Háva­mál hafa fylgt okkur í gegnum aldir og margar af hendingunum lifað góðu lífi með þjóðinni og hún gripið til þeirra við ýmis til­efni.

Ein er sú sem um þessar mundir hefur sér­staka þýðingu:

Ungur var eg forðum,

fór eg einn saman,

þá varð eg villur vega,

auði­gur þóttumst

er eg annan fann,

maður er manns gaman.

Það er sum sé auð­velt að villast af leið séu menn einir og hafi sér engan til halds og trausts. Lík­legra er að finni menn sér föru­naut finni þeir réttu leiðina í lífinu þar sem á­nægja fylgi því að njóta fé­lags­skapar annarra.

Þessi á­bending Háva­mála kemur í hugann nú þegar við búum við sam­komu­bann og tak­mörkum sam­vistir við aðra sem mest við megum. Þeim sem vanir eru að heilsa með handa­bandi líður eins og þeir séu ó­upp­dregnir dónar og menn leggja jafn­vel lykkju á leið sína til að forðast að stíga inn fyrir tveggja metra radíus þeirra sem á vegi þeirra verða. Þessu er erfitt að venjast.

Bent hefur verið á að þeir sem verst verða úti á þessum sam­neytis­lausu tímum séu þeir sem eru rosknir eða veilir og því við­kvæmari fyrir sóttinni en hinir yngri og full­frísku. Fjöl­skyldur hætta að heim­sækja afa og ömmu og þeir sem ekki eru full­frískir halda sig að mestu innan­húss og hitta fáa. En þetta eru þeir sem rann­sóknir sýna að sé sá hópur sem er mest ein­mana alla jafna.

Á þessum tímum er ýmis­legt annað að varast. Van­traust grefur um sig og tor­tryggni verður vart. Er örugg­lega verið að segja okkur satt? Kvik­sögur eiga reip­rennandi far­veg. Kvarðar með margs konar töl­fræði verða að megin­at­riði. Enginn veltir fyrir sér hvort fleiri tapi lífinu við fall í stiga ár­lega en þeir sem veiran verður að aldur­tila.

Og ef á fyrir mönnum að liggja að deyja, fyrr eða síðar, voru orð Kára Stefáns­sonar í helgar­blaðs­við­tali Frétta­blaðsins um síðustu helgi for­vitni­leg þegar hann var spurður um hvort hann óttaðist að smitast: „Ég vona að ef ég sýkist þá jafni ég mig en ef ég jafna mig ekki þá er ég búinn að lifa býsna góðu lífi.“ Æðru­leysið verður varla tærara.

En mikil­vægast í öllu þessu er að tapa ekki gleðinni. Gleðjast yfir stóru og smáu og hugsa með til­hlökkun til þess tíma þegar þetta allt verður að baki. Sá dagur nálgast þó mörgum finnist föstu­dagurinn langi vera dag­lega. Þegar það verður, vonum við að hefðir, siðir og venjur lifni við á ný. Heim­sóknir til ömmu og afa, vina­fundir, faðm­lög og handa­bönd verði eins sjálf­sagðir og áður. Þá verður næstum allt eins og fyrrum var.

Og maður verður manns gaman á ný.

Birtist fyrst í Fréttablaðinu - Höfundur er ritstjóri Fréttablaðsins.