Lilja hefur málað sig út í horn – hvað næst?

Lilja Alfreðsdóttir ráðherra hefur býsna gott lag á að koma sér í vandræði með pólitískum ákvörðunum sínum. Þetta á ekki síst við um skipan hennar í embætti hjá hinu opinbera þar sem hún hefur lokavald vegna ráðherratignar sinnar. Ítrekað hafa komið upp vandræðamál vegna skipunar hennar í embætti sem yfirleitt hafa haft á sér flokkspólitískan svip og vandræðalegt yfirbragð.

Núna síðast skipaði hún þjóðminjavörð án þess að auglýsa stöðuna þó að ætlast sé til þess. Málsvörn Lilju er að samkvæmt reglum er unnt að finna undantekningarákvæði þegar sérstaklega stendur á. Þá er heimilt að færa embættismenn til innan kerfisins en ekki er ætlast til þess að ákvæðinu sé beitt nema í undantekningartilvikum.

Ýmsir hópar embættismanna hafa mótmælt vinnubrögðum Lilju hástöfum og hún hefur vissulega ekki bætt stöðu sína á neinn hátt með þessari ráðstöfun. Erfitt er að skila hvers vegna hún kallar yfir sig harða gagnrýni og óvild vegna máls af þessu tagi. Henni var í lófa lagið að fara að öllum reglum, láta auglýsa stöðuna og velja svo þann umsækjanda sem henni hugnast best, svo fremi að umsækjandinn uppfyllti eðlilegar form- og hæfniskröfur. En Lilja valdi aðra leið og kallar því yfir sig harða gagnrýni og mikla óánægju.

Lilja er svo sem ekki eini ráðherrann sem hefur farið á svig við grunnreglur varðandi ráðningar embættismanna. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á klúðurslegan feril að baki hvað þetta varðar ekki síst með ráðningu Ásdísar Höllu Bragadóttur, fyrrverandi formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, í embætti ráðuneytisstjóra þar sem valdar voru ýmsar krókaleiðir. Minna mál er gert út af því en þegar Lilja fremur endurtekin brot á meginreglum vegna ráðningar embættismanna. Lilja er jú varaformaður Framsóknarflokksins og til hennar eru gerðar auknar kröfur vegna þeirrar stöðu.

Vegna þess hvernig var staðið að ráðningu þjóðminjavarðar eru önnur vandræðamál Lilju á sviði mannaráðninga rifjuð upp. Ekki síst verður fólki tíðrætt um þau málaferli sem hún stóð í við konu sem sótti um stöðu ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu sem endaði fyrir dómstólum þar sem Lilja tapaði málinu. Félagi hennar í Framsókn, Ásmundur Einar Daðason, leysti málið eftir að hann tók við lyklunum í því ráðuneyti. Hann náði sáttum sem Lilja var ekki fær um,en ríkið þurfti að greiða milljónir króna í bætur og málakostnað. Fleira er tínt til sem ástæðulaust er að rifja upp að svo stöddu.

Ítrekað er að Lilja hafði vald til að beita undantekningarreglu við ráðningu þjóðminjavarðar. Engin þörf var hins vegar á því. Eftir stendur að efast má um dómgreind ráðherrans og stöðugt fjölgar í hópi þeirra sem munu ekki treysta henni til að taka við formennsku í Framsóknarflokknum þegar Sigurður Ingi stígur niður úr valdastóli sínum. Ætla má að það styttist í þau tímamót enda er Sigurður Ingi kominn á sjötugsaldur og hefur komið flokknum á eins góðan stað og hugsast getur hvað varðar fylgi og valdastöður.

- Ólafur Arnarson.