Leynilegar þreifingar

Náttfari 14. sept 2017
 
Út úr grein Dagfara fyrr í dag má lesa að skýringar Árna Páls Árnasonar á hjásetu Samfylkingar, VG og Pírata við afgreiðslu búvörusamninganna afhjúpi einhvern pólitískan sljóleika eða óþarfa hjartagæsku. Náttfari er á öndverðum meiði. Hér þarf dýpri skýringa við.
Það er ekki allt sem sýnist í pólitík og hefur aldrei verið. Miklu líklegra er að hér liggi að baki leynisamningar um myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum. Það gætu líka verið óbindandi þreifingar.
Allir sem fylgjast með stjórnmálum eiga að vita að það er heilt úthaf á milli Samfylkingar og VG í landbúnaðarmálum. VG vildi í raun og veru ganga miklu lengra en stjórnarflokkarnir. Þau vildu bæði meiri ríkisstyrk og frekari takmarkanir á frjálsri verslun með búvörur. 
Eina leiðin til þess að fela málefnaágreining í svo stóru máli var að sitja hjá. Sú ákvörðun bar því vott um kænsku en hvorki pólitískan sljóleika eða hjartagæsku í garð stjórnarliðsins í heild. 
Þá kunna einhverjir að spyrja hvers vegna þessi ágreiningur mátti ekki koma fram í dagsljósið. Á því er í sjálfu sér einföld skýring. Það þarf ekki að krafsa langt undir yfirborðið til að koma auga á hana.
Samfylkingin vill ekki í ríkisstjórn án VG. Formaður hennar hefur útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokk. Ólíklegt er að VG og Viðreisn nái saman um landbúnaðarmálin. Eini ríkisstjórnarkosturinn fyrir Samfylkinguna er því að ná saman með VG, Pírötum og Framsókn. 
Það hefði verið mjög vont að styggja Framsókn á þessu stigi með mál sem er henni svo mikilvægt ef ætlunin er að halda þeim möguleika opnum að ná samstarfi við hana eftir ksoningar.
Líklegast er að samtöl hafi þegar átt sér stað á bak við tjöldin um að Framsókn muni meta það að kosningum loknum að Samfylkingin héldi sér til hlés við afgreiðslu búvörulaganna. Eftir kosningar er svo unnt að segja að fyrri ríkisstjórn hafi verið búin að binda fyrir alla möguleika á breytingum. 
Það sem Náttfari á erfiðara með að átta sig á er hvernig Samfylkingunni tókst að fá Pírata með í leikinn. Hugsanlega er þetta fyrsta baktjaldamakk þeirra. En svo gæti líka verið að slyngir menn á við Össur Skarphéðinsson hafi einfaldlega notfært sér reynsluleysi Pírata og platað þá til að vera með.