Laus úr \"ofbeldissambúðinni\".

Fyrirsögnin er fengin að láni úr bók Jóns Torfasonar \"Villikettirnir og vegferð VG Frá væntingum til vonbrigða\" sem áður hefur verið vikið af hér í greininni  \"Þegar hann eygði von um ráðherrasæti.\" Í þeirri grein var athyglinni beint að svikum Steingríms J Sigfússonar formanns VG við myndun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þegar Steingrímur fórnaði kjölfestustefnu flokksins og gerði ekkert með stefnuskrár eða ályktanir flokksráðs og annarra flokksstofnana til að ná ráðherrastóli og áhrifum í ríkisstjórninni. Og ávallt og ævinlega stóð þáverandi varaformaður, nú formaður, flokksins þétt við bak hans, Katrín Jakobsdóttir.

Nú er athyglinni beint að flokksaganum ef svo má kalla sem þau Steingrímur og Katrín beittu aðra þingmenn og ráðherra flokksins í vinstristjórninni. Ferill þessarar ríkisstjórnar er einstakur að því leyti að í öðrum stjórnarflokknum, VG, var frá byrjun allt í upplausn og illdeilum um meginmál ríkisstjórnarinnar sem voru tvö: Aðildarumsóknin að ESB og Icesave-málið.

VG hafði fengið 14 þingmenn kjörna vorið 2009, gríðarleg fylgisaukning. Jón Torfason rekur í bók sinni fjölmarga vitnisburði flokksmanna, burðarása flokksins víða af landinu, um að trúin á að VG væri eina trausta vígið gegn ESB aðild hefði aflað flokknum þessa aukna fylgis. Svo var það svikið - jafnskjótt og ráðherrastólarnir voru í augsýn. Áður en langt um laið höfðu þrír þingmanna VG yfirgefið flokkinn. Jón Torfason gerir grein fyrir að ástæður þess voru ekki einungis ágreiningur vegna aðildarumsóknarinnar eða Icesave. Miklu fremur má álykta að meginskýringarnar hafi verið harka, hroki og fleira jafnvel verra en það af hálfu forystu flokksins í þeirra garð.

Þingmennirnir sem yfirgáfu flokkinn voru Lilja Mósesdóttir, Ásmundur Einar Daðason, og Atli Gíslason. Í rauninni fóru þó tveir í viðbót, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sem var flæmd frá embætti formanns þingflokksins að loknu fæðingarorlofi og Jón Bjarnason sem ver ráðherra en á endanum var flæmdur úr því embætti og loks alla leið úr stjórnmálunum. Við þessi brotthvörf stóð meirihluti ríkisstjórnarinnar tæpt, var í reynd fallinn ef ekki hefði komið til að villuráfandi sauður, fyrrum félagi, Þráinn Bertelsson kom heim aftur eftir að hafa villst inn í raðir Borgarahreyfingarinnar og þannig inn á þing.

Í bókinni styðst Jón Torfason við beinar frásagnir þingmanna, ekki síst Atla Gíslasonar og Jóns Bjarnasonar. Hann hefur aðgang að dagbókurm Atla þar sem ítrekað koma fram frásagnir að því þegar gríðarlegum þrýstingi er beitt á þingmenn af hálfu flokksforystunnar, en líka af forsætisráðherranum Jóhönnu og utanríkisráðherranum Össuri, jafnan með þeim orðum að samstaðan megi ekki bresta, stjórnin megi ekki falla o.s.frv. 

Á útmánuðum 2011 hafa Atli og Lilja Mosesdóttir fengið nóg og segja sig úr þingflokknum. Síðasta færsla Atla í pólitíska dagbók hans er 21. mars og henni lýkur með orðunum: \"Laus úr \"ofbeldissambúðinni.\"\"

Ögmundar þáttur Jónassonar verðskuldar sérstaka athygli. Átökin um Icesave urðu á endanum til þess að Ögmundur sagði af sér embætti heilbrigðisráðherra í lok september 2009, eftir eitt sumar í embætti. Það gerði hann vegna þess að hann gat ekki samþykkt Icesave samninginn (Svavars-samninginn) fyrirvaralaust eins og afdráttarlaus krafa var um af hálfu jóhönnu og Steingríms. Hann fékk kaldar kveðjur, enn kaldari en hinir \"villikettirnir\" þurftu að þola seinna.  

Kveðjum Steingríms til Ögmundar er vel lýst á andriki.is 6. október 2009: \"Þegar núverandi formaður vinstrigrænna var spurður um afsögn ráðherrans, þessa eins allra helsta forystumanns flokksins, talaði hann eingöngu um að Ögmundur hefði þurft að standa í miklum niðurskurði í ráðuneytinu og það verið honum þungbært. Steingrímur minntist ekki á Icesave-málið fyrr en hann var sérstaklega spurður.\" Og svo: \"Það sem Steingrímur segir er þetta: Ögmundur þurfti að standa í niðurskurði, en hann réði ekki við það. Hann rennur þess vegna af hólmi, en er ekki maður til að segja það hreint út, heldur gefur Icesave-málið upp sem tylliástæðu. Hann er ekki aðeins ósannindamaður heldur heigull.

Nú er Vefþjóðviljinn ekki sérstakur pólitískur bandamaður Ögmundar Jónassonar, en þykir þessi framganga Steingríms J. með algerum ólíkindum, og það gagnvart manni sem hefur verið náinn samstarfsmaður Steingríms lengi, og Steingrímur veit að er annt um trúverðugleika sinn. Og það ætti að blasa við öllum mönnum að það er ekki hræðsla við niðurskurð sem hefur rekið Ögmund Jónasson úr ráðherraembætti.\"

Sjá má alla greinina hér: http://andriki.is/2009/10/06/thridjudagur-6-oktober-2009/

Kannski er ekki að undra að VG reynir að fela Steingrím nú í aðdraganda kosninga, ekki vænlegt að flagga manni með slíkan ofbeldisferil. En - full ástæða er til að minna á enn og aftur að núverandi formaður og andlit flokksins, Katrín Jakobsdóttir, stóð alla tíð þétt við bak Steingríms í öllu því einelti af hans hálfu sem flokksmenn urðu fyrir ef þeir leyfðu sér að gera athugasemdir, að ekki sé talað um ef þeir höfðu óæskilegar skoðanir. Þá fór fyrir þeim eins og Guðfríði Lilju og Jóni Bjarnasyni sem voru \"hreinsuð\" út í anda félaga Stalíns.