Landbúnaðarráðherra kemur af fjöllum og er “mjög sjokkeraður”

Landsmenn eru slegnir eftir að Kastljós RÚV sýndi skuggalegan þátt um það hvernig eggjaframleiðandinn Brúnegg ehf. hefur blekkt neytendur og þverbrotið reglur um dýravelferð og hollustuhætti við matvælaframleiðslu. Fyrirtækið hefur merkt umbúðir og auglýst vistvæn egg árum saman án þess að það stæðist.

Þessar blekkingar hafa staðið yfir í mörg ár. Eftirlitsstofnanir hins opinbera hafa gert margháttaðar athugasemdir og hótað aðgerðum. Það er hins vegar landbúnaðarráðuneytið innan atvinnuvegaráðuneytisins sem hefur yfirumsjón með öllu matvælaeftirliti og dýravelferð. Hjá landbúnaðarráðuneytinu liggur hin endanlega ábyrgð á því að málefni matvælaframleiðenda séu í viðunandi farvegi.

Þegar Kastljós RÚV upplýsir um þetta hneyksli, kemur Gunnar Bragi Sveinsson, landbúnaðarráðherra, algerlega af fjöllum og segir málið vera “mjög sjokkerandi.” Það er einfaldlega ekki nóg að æðsta yfirvald svona mikilvægra mála lýsi yfir “sjokki” en viti ekkert í sinn haus varðandi mál sem hann ber endanlega ábyrgð á.

Náttfara finnst að ráðuneyti matvæla hafa algerlega brugðist skyldum sínum. Ekki er við Gunnar Braga einan að sakast því hann hefur setið í þessu ráðuneyti einungis síðustu 7 mánuðina en þar á undan var Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðar-og sjávarútvegsráðherra frá vorinu 2013 og Steingrímur J. Sigfússon gegndi þessu ráðherraembætti í lok vinstristjórnartímans. Svikin og blekkingarnar ná yfir valdatíð allra þessara þriggja manna sem hafa greinilega brugðist í eftirlitshlutverki sínu. Þessir þrír ráðherrar málaflokksins, núverandi og fyrrverandi, verða að svara fyrir aðgerðarleysi sitt, já beinlínis svik opinberra aðila við neytendur og vanrækslu að því er varðar eftirlit með velferð dýra.

Það dugar ekki að Gunnar Bragi Sveinsson komi nú af fjöllum og lýsi yfir að málið sé “mjög sjokkerandi”. Það þarf ekki Gunnar Braga til að úrskurða um það. Neytendur eru mjög slegnir og skynja það sjálfir og hjálparlaust.

Ráðherrar verða að sinna skyldum sínum og axla ábyrgð á hneyksli eins og hér um ræðir.