Kvennmannslaus í kulda og trekki

Eftir prófkjör helgarinnar stefnir í að Sjálfstæðisflokkurinn fái enga konu kjörna á þing úr þremur af sex kjördæmum landsins í næstu kosningum.
 
Áður var komið fram að Valgerði Gunnarsdóttur var rutt úr þingsæti sínu í NA-kjördæmi með kosningu kjördæmaráðs um síðustu helgi. Niðurstaða prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Kraganum skilar flokknum afar veikum lista. Bjarni Benediktsson formaður glansar í fyrsta sæti og svo koma þrír karlar á sjötugsaldri þar á eftir. Engin kona fyrr en í 5. sæti og hún er alls ekki sterkur frambjóðandi. Það er nú skrifað í skýin að flokkurinn muni ekki ná nema 4 þingmönnum í kjördæminu en hann hefur 5 núna. Elín Hirst fellur út. Hún náði ekki einu sinni sjötta sæti listans. Meira hefur ekki verið birt og því ekki vitað hve neðarlega hún lenti.
Verði það niðurstaðan að Sjálfstæðisflokkurinn fái einungis 4 þingmenn í kjördæminu, þá fækkar þar með um tvær konur því Ragnheiður Ríkharðsdóttir gaf ekki kost á sér.
 
Konur urðu einnig undir í Suðurkjördæmi. Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra leiddi lista flokksins í síðustu kosningum. Hún sóttist að sjálfsögðu eftir því að nýju. Henni var hafnað með afgerandi hætti þannig að hún lenti í 4. sæti. Sú niðurstaða verður ekki túlkuð öðru vísi en sem stórpólitísk tíðindi. Sjálfstæðisflokkurinn hafnar leiðtoga kjördæmis sem gegnt hefur ráðherraembætti allt kjörtímabilið í einu mest spennandi ráðuneyti sem völ er á. Hún vann því miður ekki betur en svo úr tækifæri sínu sem ráðherra að flokkur hennar vísar ráðherranum á dyr. 
 
Ragnheiður Elín hlýtur að skilja skilaboðin og hætta afskiptum af pólitík.
 
Unni Brá Konráðsdóttur, sem skipaði 2. sæti listans í síðustu kosningum, er einnig hafnað með afgerandi hætti. Hún lenti í 5. sæti sem mörgum þótti ómaklegt því hún hefur reynst ötull þingmaður á kjörtímabilinu.
Samkvæmt niðurstöðu prófkjörsins eru karlar í þremur efstu sætunum. Tveir þeirra á sjötugsaldri og svo ungur þingmaður, Vilhjálmur Árnason, sem vakið hefur á sér athygli í þinginu fyrir að hafa einungis eitt mál á sinni könnu, nauðsyn þess að selja áfengi í verslunum og sjoppum.
 
Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú 4 þingmenn í Suðurkjördæmi. Með listann svona skipaðan er borin von að hann fái fleiri en þrjá þingmenn kjörna. Þeir eru allir karlkyns. 
 
Gangi þetta eftir hverfa 5 þingkonur Sjálfstæðisflokks á braut úr umræddum þremur kjördæmum án þess að nokkur kona komi í staðinn. Ragnheiður Ríkharðsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Því til viðbótar munu væntanlega falla af þingi þær Valgerður Gunnarsdóttir, Elín Hirst, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir.
 
Sjálfstæðisflokkurinn er að verða býsna kvennmannslaus í kulda og trekki, eins og segir í kvæðinu. Og kúrir nú “volandi” því í kjölfarið á þessari útreið krefjast kvennasamtök flokksins þess núna að niðurstöðum prókjöra verði umturnað, leikreglum breytt eftir á og körlum ýtt til hliðar fyrir fallnar konur sem buðu sig fram og hlutu ekki brautargengi.
 
Engar líkur eru á að samstaða geti náðst um slíkar breytingar enda algerlega óboðlegt gagnvart þeim sem hafa lagt á sig margra vikna vinnu og fyrirhöfn – fyrir svo utan milljónaútgjöld sem prófkjörin útheimta.
Að ekki sé nú talað um leiðindin sem þessu fylgja. Ásmundur Friðriksson sem hlaut 2. sætið í Suðurkjördæmi hefur látið það koma fram að Páll Magnússon sem náði 1. sætinu sé ekkert nema “innmúraður krati” sem hafi smeygt sér inn í Sjálfstæðisflokkinn á síðustu stundu til að svala persónulegum metnaði. Ásmundur talar einnig um “grimmd og slitin vinabönd” sem fylgi prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi.
 
Fróðlegt verður að sjá hvernig þeim tveimur gengur að vinna saman í komandi kosningabaráttu; kratanum á toppi lista Sjálfstæðisflokksins og svo öfgahægrimanninum Ásmundi þar á eftir, sem verður væntanlega klár með rýtinginn í bakið á Páli.
 
Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins ráða sér ekki fyrir kæti.