Kvennahallæri sjálfstæðisflokks

Mikið vantar upp á að staða kvenna á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins sé viðunandi. Sama má reyndar segja um Samfylkinguna.

Aftur á móti stefnir í að bæði Viðreisn og VG fái jafnmargar konur kjörnar á þing og karla. Báðir þessir flokkar tefla fram mjög öflugum konum á framboðslistum sínum.

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum fengi Sjálfstæðisflokkur 15 þingmenn.

Þar af einungis 4 konur, Ólöfu Nordal, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, Þórdísi Gylfadóttur og Bryndísi Haraldsdóttur sem færð var með handafli upp í annað sæti flokksins í Kraganum. Af þeim getur einungis Ólöf talist sterkur frambjóðandi.

Ekki er staða kvennamála skárri hjá Samfylkingu. Nýjustu kannanir gera ráð fyrir að flokkurinn nái 5 þingmönnum. Þar af er ein kona, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Formaður flokksins næði ekki kjöri.

Náttfari telur að eftirtaldar konur nái kjöri hjá VG: Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Steinunn Árnadóttir, Rósa Brynjólfsdóttir, Bjarkey Olsen og Lilja Rafney Magnúsdóttir. Konur verða væntanlega í meirihluta í þingflokki VG á komandi kjörtímabili.

Gangi flokknum vel á lokametrum kosningabaráttunnar gætu eftirtaldar komist á Alþingi fyrir Viðreisn: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Jóna Sólveig Elínardóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Dóra Sif Tynes og Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir.

Sannarlega öfundsverð staða hjá Viðreisn og VG þegar litið er til kvenna í framboði á vegum flokkanna.