Kristrún styrkir enn stöðu sína í undanhaldi stjórnarflokkanna

Í nýrri skoðanakönnun Maskínu fyrir Stöð 2 heldur forskot Samfylkingarinnar áfram að aukast á kostnað Sjálfstæðisflokksins sem er kominn niður í 18.5 prósent fylgi og fengi 12 þingmenn kjörna samkvæmt þessari könnun en nýtur nú stuðnings 17 þingmanna. Samfylkingin fengi 27.2 prósenta fylgi og 17 þingmenn kjörna ef úrslit kosninga yrðu í samræmi við þessa könnun.

Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja er komið niður í 34 prósent og hefur aldrei mælst lægra. Niðurstaða þessarar könnunar Maskínu er í meginatriðum svipuð því sem verið hefur á undanförnum mánuðum, nánast allt frá síðasta hausti. Þó heldur fylgi ríkisstjórnarflokkanna áfram að lækka. Framsókn er komin niður í tæp 9 prósent og fengi 6 menn kjörna en náði 13 þingmönnum í kosningunum haustið 2021. Vinstri græn mælast með 7 prósenta fylgi og fengi 4 menn kjörna á þing og tapar þannig hálfum þingflokki sínum frá kosningunum.

Stjórnarandstöðuflokkarnir Píratar og Viðreisn bæta við sig fylgi, Píratar með 11 prósent og Viðreisn með tæp 10 prósent og fengi 6 menn kjörna en Píratar næðu sjö þingmönnum.
Miðflokkurinn og Flokkur fólksins fengju fjóra menn kjörna hvor flokkur og Sósíalistaflokkur Íslands er alveg við brúnina að ná inn og fá þrjá þingmenn.

Búist var við því að atburðir síðustu viku yrðu til að auka fylgi Sjálfstæðisflokksins og VG. Bjarni Benediktsson boðaði harða stefnu í útlendingamálum og margir töldu að með því að ala á útlendingaóvild gæti flokkurinn bætt við sig fylgi. Svo virðist ekki vera ef marka má skoðanakönnun Stöðvar 2.

Með útspili sinu varðandi hvalveiðar vakti Svandís Svavarsdóttir umtal og athygli. Hún hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðustu daga vegna málsins en það virðist ekki ætla að hjálpa Vinstri grænum til að ná auknu fylgi. Flokkurinn og ráðherrar hans virðast vera rúinn trausti. Nú er komið fram álit frá virtri lögmannsstofu sem segir beinlínis að með ákvörðun sinni hafi Svandís brotið lög. Það mun ekki bæta stöðu hennar í þessu máli.

Svandís lætur þetta væntanlega ekki hafa áhrif á sig enda er hún vön því að taka á sig ávirðingar frá dómstólum án þess að láta það trufla. Í embætti umhverfisráðherra hlaut hún dóma bæði í undirrétti og Hæstarétti vegna lögbrota í embætti. Hún sagði ekki af sér ráðherradómi og svaraði því til að milli sín og Hæstaréttar Íslands væri pólitískur ágreiningur.

Og þar við sat. Og það var látið gott heita!

- Ólafur Arnarson.