Ímynd og veruleiki

Fyrir kemur að Náttfari dettur í skáldlegar hugleiðingar, sem oft bjargar sálartetrinu á næturröltinu um myrka og válega stíga klækjastjórnmálanna. Það er auðvitað ekki raunveruleg vettvangsrannsókn í þetta sinn, heldur könnun þeirra myrkviða sem Jón Torfason lýsir í bók sinni um Villikettina og hefur verið greint frá í tveimur fyrri pistlum hér. Þessi merka bók er svo þrungin frásögnum biturra og vonsvikinna hugsjónamanna úr vinstrinu af undirmálum flokksforystunnar að bráðnauðsynlegt er að létta sitt geð eftir að hugurinn hefur fengið að líta þessa dimmu veröld þeirra Steingríms og Katrínar. Þess vegna bregður Náttfari á það ráð að búa til fyrirsögn í anda hins fræga rómantíska dramaverks um Gæfu og gjörvileika sem sitt var hvað í því mikla verki. Eins er það hér, eftir að lesa bók Jóns Torfasonar verður það óhugnanlega vel ljóst að sitt er hvað sú ímynd sem forysta Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sýnir út á við eða sá veruleiki sem blasti við flokksmönnum, þingmönnum og ráðherraum, þegar þau Grímur og Kata höfðu komið auga á ráðherrastólana og vildu hafa sitt fram.

Skýrasta myndin af þessum tvískinnungi er dregin upp í þriðja viðauka sem hefst á bls. 242 undir öðru afbrigði sama titils: Orð og efndir. Þar er birt greinargerð þeirra Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur (sem Steingrímur og Katrín hröktu úr flokknum í mars 2011). Reyndar má finna dæmin á hverri einustu blaðsíðu bókarinnar, en þarna eru þau sérlega skýrt saman dregin í stuttu máli.

Samt er það of langt mál til að hafa allt eftir hér og skal látið duga að nefna nokkur dæmi (en áhugamenn um stjórnmál, sérstaklega klækjastjórnmál, ættu að drífa í að verða sér úti um bókina, hún er örugglega til hjá útgefandanum Sæmundi (Bjarna Harðar) á Selfossi).

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn: \"SJS hefur, sem fjármálaráðherra, lagt áherslu á að uppfylla skilyrði AGS um jákvæðan frumjöfnuð á árinu 2011, þrátt fyrir versnandi efnahagsástand og að vegið sé að grunni velferðarþjónustunnar.\"

ESB aðildarumsókn: \"Réttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra [Jóns Bjarnasonar, innsk.] \"til málflutnings og baáttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína\" er ekki virtur og stöðugt verið að þrýsta á brotthvarf hans úr ráðherrastóli.

Ögmundur Jónasson varð að segja af sér ráðherradómi í kjöldar hótana Jóhönnu Sigurðardóttur vegna andstöðu hans við Icesave samninginn frá í júní 2009. Samþykkt Icesave samningsins var talin forsenda þess að ESB löndin samþykktu að taka við aðildarumsókn Íslands.\"

Icesave-málið: 3. júní 2009 segir SJS í svari á Alþingi við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar: \"Ég held ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.\"

\"Sólarhring síðar eða 4. júní voru Icesave-samningarnir kynntir þingmönnum og opinberlega hinn 5. júní 2009.\"

Sjóvá, VBS og SAGA Capital: \"Ríkið setti 11,6 milljarða inn í Sjóvá 8. júlí 2010 án þess að ræða framlagið við þingflokk VG.\"

\"Í lok árs 2009 barst Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) kvörtun frá íslensku tryggingafyrirtæki vegna aðkomu ríkisins að endurreisn Sjóvár.

Í september 2010 hóf ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, formlega rannsókn á því hvort íslenska ríkið hafi veitt tryggingafélaginu Sjóvá ólögmæta ríkisaðstoð þegar það lagði 11,6 milljarða króna inn í félagið fyrr á árinu. ESA gagnrýnir að íslensk stjórnvöld  hafi ekki tilkynnt stofnuninni um ætlun sína áður en ríkið lagði Sjóvá til fjármagn.\"

\"Ákvörðun fjármálaráðherra [SJS, innsk.] að leggja hlutafé inn í Sjóvá árið 2009 og sala á helming þess hlutar vekja upp spurningar um lögmæti þessa gjörnings og hvort verið sé að selja eignarhlut ríkisins í Sjóvá á brunaútsölu til að komast hjá lögsókn ESA.\"

Endurreisn bankakerfisins: Bankakerfið var fært kröfuhöfum án þess að gengið væri frá lausn á skuldavanda heimila og fyrirtækja. Tækifærið til að tryggja réttláta niðurfellingu skulda og húsnæðisöryggi var látið renna þjóðinni úr greipum.\"

Sem fyrr segir eru hér aðeins tínd til fáein af þeim atriðum sem þau Atli og Lilja greina frá í greinargerð sinni. Til einföldunar mætti því segja að það gæfi raunsannari mynd að margfalda þessa upptalningu með nokkrum tugum, en best er auðvitað að fá þetta frá fyrstu hendi og lesa bók Jóns Torfasonar. Það er þó þrekraun og ekki heiglum hent að þræða þá myrkviði alla, hina samfelldu sögu undirmála ef ekki svika formanns og varaformanns VG við flokksmenn sína, þingmenn almennt að ekki sé talað um þjóðina alla. Og - þetta fólk lætur nú eins og ekkert hafi gerst og allir hafi gleymt og enginn muni neitt. Að það nægi bara að Grímur láti af formennsku (hann er enn oddviti VG í Norðausturkjördæmi) og Kata setjist í formannsstólinn og brosi breitt!