Í örvæntingu útnefna þeir halldór sem sökudólginn

Flokkseigendur Sjálfstæðisflokksins taka út miklar þjáningar vegna veikrar stöðu flokksins í Reykjavík. Borgin var áður höfuðvígi flokksins en er nú veiki hlekkurinn í valdakeðju sjálfstæðismanna. Ekkert bendir til þess að flokkurinn muni rétta hlut sinn í borgarstjórnarkosningum næsta vor þó einstaka flokksmenn og Morgunblaðið hamist gegn Degi borgarstjóra með ærumeiðingum og illmælgi oft í viku. Það virðist einungis styrkja stöðu hans.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjóra borgarfulltrúa og um fjórðungsfylgi í borginni. Það er veikasta staða flokksins frá upphafi en lengi vel hafði hann 8 til 10 borgarfulltrúa og meira en helming atkvæða. Tilkoma R-listans vorið 1994 kippti fótunum undan Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík að því er virðist endanlega. Síðan hefur hann ekki séð til sólar. Ekkert bendir til þess að þar verði breyting á.

Einhver öfl innan flokksins eru þó ekki ennþá úrkula vonar. Talið er að harðlínumenn leiti logandi ljósi að einhverjum til að leiða lista flokksins næsta vor. Leitin hefur enn ekki borið árangur.

Athygli vakti þegar Viðskiptablaðið, sem er grímulaust málgagn Sjálfstæðisflokksins, birti fyrir skömmu stóra skoðanakönnun sem mældi óbreytta stöðu í borginni frá síðustu kosningum. Núverandi meirihluti hélt áfram 60% fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn var enn fastur í sínum 25% eins og í kosningunum árið 2014 sem var langversta útkoma flokksins frá upphafi.

Bent var á að Viðskiptablaðið birti ekki könnun af þessu tagi nema það þjónaði tilgangi. Og menn þóttust sjá að tilgangurinn væri sá að beina athygli að veikri stöðu þeirra einstaklinga sem skipa þennan fámenna hóp borgarfulltrúa flokksins. Einkum var talið að spjótum væri beint að Halldóri Halldórssyni sem leiddi lista flokksins vori 2014 og hefur þótt jafn litlaus og lélegur í minnihlutanum og hinir.

Grunur hefur leikið á að flokkseigendur væru með einhvern í erminni sem ætti að tefla fram gegn Halldóri til að leiða lista flokksins i komandi kosningum.

Nú hefur Viðskiptablaðið talað skýrar í nafnlausum pistil sem birtist þann 9. júli undir nafninu Týr:

“Það er augljóst að Halldór Halldórsson, oddviti minnihlutans, hefur brugðist hlutverki sinu. Hann tapaði kosningunum 2013, en situr enn áfram eins og ekkert hafi i skorist og stefnir ótrauður í að tapa næstu kosningum lika. Það er ekki aðeins innanflokksvandamál Sjálfstæðisflokksins, borgarbúar þurfa að hafa eitthvert val. Halldór þarf að víkja og rýma til fyrir fersku forystufólki, sem getur skorað meirihlutann á hólm. Og jafnvel unnið.”

Halldór tapaði en situr áfram eins og ekkert hafi í skorist, segir Týr. Þetta er rík hefð í Sjálfstæðisflokknum í borginni allt frá árinu 1994 – í 27 ár. Engar nýjar fréttir þar. Týr er varla búinn að gleyma Árna Sigfússyni, Birni Bjarnasyni og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem sátu öll sem fastast eftir töp sín.

Greinilegt er að flokkseigendur eru með einhver plön. Það þarf að ryðja Halldóri úr vegi og viðurkenna hann sem sökudólg þeirrar útreiðar sem flokkurinn hefur fengið i borginni. Og svo á að tefla fram nýjum oddvita. En hver er hinn “ferski” sem gæti skorað Dag á hólm eða fundið hann í fjöru?

Í fljótu bragði er hann ekki sýnilegur. Nokkur sorgleg dæmi hafa verið nefnd en engin þeirra eru líkleg til að ná nokkrum árangri. Eini maðurinn sem gæti hrist eitthvað upp í þessu er Gísli Marteinn Baldursson en hann mun þegar hafa gefist upp á Sjálfstæðisflokknum út af stefnumálum sem hann aðhyllist ekki. Flugvallarmálið er dæmi um það.

En hvað er Viðskiptablaðið þá með í huga? Ætli sá “ferski” sé e.t.v. Davíð Oddsson? Hann er þó vanur maður úr borgarmáum. Og ennþá vanur kosningabaráttu, síðast forsetakosningum frá í fyrra þegar hann náði 13,4% fylgi og fjórða sæti.

 

rtá.