Í liði með sigmundi davíð

Menn hafa verið að hnýta í Sigmund Davíð Gunnlaugsson vegna hugmynda hans um að nýta gamlar teikningar Guðjóns Samúelssonar fyrir viðbyggingu þinghússins á horni Tjarnargötu og Vonarstrætis, sagt þær úreltar, gamaldags, hallærislegar og þjóðrembulegar. Þessu er Náttfari ósammála. Forsætisráðherra sendi jólakort í ár með tölvumynd af viðbyggingunnu í anda gamla húsameistarans - og það verður að segjast alveg eins og er að húsið er eins og sniðið á umrætt horn; virðulegt, fallegt og fellur vel að mörgum gömlum húsum á svæðinu. Þarna er ráðherrann ekki á villigötum - og hreint ekki svo, því af hverju má ekki hafa húsið í takti við tíðarandann sem Íslendingar ætla að minnast árið 2018, nefnilega fullveldisársins þegar hér á landi voru reist hús sem enn þann dag í dag eru talin á meðal þeirra allra fegurstu sem höfuðborgin státar af. Eða viljum við frekar karakterlausan steinkumbalda á hornið við hliðina á Ráðhúsi Reykjavíkur, enn einn, gætu margir sagt? Og er það alltaf fyrirfram dæmd þjóðremba að taka tillit til arfleifðarinnar og þess sem vel var gert í gamla daga? Hér er Náttfari í liði með Sigmundi Davíð, eins og stundum áður, þótt hann kjósi nú ekki Framsókn nema þegar þess þarf með ...