Hverjir eru á réttri leið ?

Sjálfstæðisflokkurinn gengur til kosninganna undir slagorðinu Á RÉTTRI LEIÐ. Væntanlega er verið að vísa til þess að staða efnahagsmála í samfélaginu er góð vegna þess gríðarlega vaxtar sem verið hefur í ferðþjónustu á undanförnum 4-5 árum. Sú stórkostlega verðmætasköpun sem vöxtur ferðaþjónustunnar er að skila okkur hefur leitt til þess að atvinnuleysi er nær ekkert, kaupmáttur hefur aukist, gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins eykst jafnt og þétt, krónan styrkist vegna þess, innflutningsverðlag lækkar vegna þess og því er verðbólga lág. Allt leiðir þetta til hagvaxtar í boði ferðaþjónustunnar. Stjórnarflokkarnir vilja nú þakka sér góðærið sem ferðaþjónustan hefur skapað. En allir hugsandi kjósendur sjá að verðmætasköpunin verður til úti í atvinnulífinu en ekki á vettvangi Alþingis. Hvorki hjá stjórn né stjórnarandstöðu.
 
Kjósendur hugsa nú meira um þá spillingu sem hefur viðgengist í tíð núverandi ríkisstjórnar sem leitt hefur til þess að forsætisráðherra varð að segja af sér og stjórnin var knúin til að stytta kjörtímabilið um hálft ár, algerlega gegn sínum vilja. Þá þurfti Hanna Birna Kristjánsdóttir að segja af sér ráðherradómi vegna lekamáls og tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru svo laskaðir eftir kjörtímabilið að þeir geta ekki haldið áfram stjórnmálastarfi. Illugi Gunnarsson vegna fjármálasukks og Ragnheiður Elín Árnadóttir vegna afar slakrar frammistöðu sem ráðherra.
 
Svo virðist sem kjósendur kaupi ekki hagtölur í adraganda kosninga. Þeir veilja sjá aukið réttlæti í samfélaginu og þeir vilja að dregið verði úr þjónkun við sérhagsmunahópa í sjávarútvegi og landbúnaði. Þess vegna virðist fylgi stjórnarflokkanna vera hrunið og stjórnin kolfallin. Gæslumönnum gjafakvótakerfisins og búvörusamnings verður á næstu dögum vísað út úr stjórnarráðinu.
 
Í ljósi þessa virðist margt benda til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki á réttri leið. Hann er á niðurleið. Sama gildir um Framsókn. Því verður ekki trúað á aðra flokka sem munu fá menn kjörna á þing að þeir taki að sér að blása lífi í fallna ríkisstjórn með því að ganga inn í ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Kjósendur munu líta á það sem svik við sig ef VG, Viðreisn eða Píratar koma að því að halda lífi í núverandi stjórn. Þeir haf allir lýst því yfir að það komi ekki til greina. Náttfari trúir þeim yfirlýsingum.
 
Forysta Sjálfstæðisflokksins, ásamt nánum ættingjum, er ekki á réttri leið þegar hún getur ekki tamið skap sitt og sýnt þokkalega yfirvegun. Þannig hefur Bjarni Benediktsson átt í mesta basli með að halda ró sinni eftir að Kastljós vó tvisvar að Sjálfstæðisflokknum í liðinni viku. Framkoma RÚV er ekki til sóma en fjármálaráðherra má ekki leyfa sér og sínum að fara niður á sama plan og Helgi Seljan og félagar eru á innan RÚV.
 
Stundin fjallar um þetta og vísar í viðtal við Bjarna Benediktsson um málið. Síðan segir Stundin:
 
“Baldvin Jónsson, tengdafaðir Bjarna Benediktssonar sem Illugi Gunnarsson skipaði í stjórn Íslandsstofu snemma á þessu kjörtímabili, deilir viðtalinu við Bjarna á Facebook og lýsir yfir áhyggjum af því að “við sem þjóð missum tökin á kosningabaráttunni og endum með sömu hörmungum og hún hefur þróast í Bandaríkjunum.”
 
Síðan segir að ýmsir hefu gert athugasemdir við málflutning Baldvins og fengið kaldar kveðjur að launum, meðal annars frá Þóru Margréti Baldvinsdóttur (Jónssonar), eiginkonu Bjarna: “Heyrðu þú “amma Pírati” vertu annars staðar!” 
 
Á hvað plani er þetta hjá fráfarandi ráðherrafrú?  Von að faðir hennar hafi áhyggjur að “við sem þjóð missum tökin”. Ekki batnar það svo þegar eiginkona Illuga Gunnarssonar fer tjá sig í þessu samhengi um spillingu.
Já, spillingu!
 
Við verðum að gera þá kröfu til ráðherra og þeirra nánustu að þeir reyni að halda sig ofan við það lága plan sem umræður á vefnum eru því miður allt of oft. 
 
Annars getum við “misst tökin”, eins og Baldvin Jónsson hefur áhuggjur af. Hann ætti að byrja á að róa sitt fólk. Svo sjáum við til með framhaldið. Finnum út hverjir eru á réttri leið.