Hver verður bankastjóri landsbankans?

Eiríkur Jónsson hefur ýtt af stað samkvæmisleik um það hver veljist til að taka við stöðu bankastjóra Landsbankans en staðan hefur verið auglýst.

Hann veðjar á að Ragnhildur Geirsdóttir framkvæmdastjóri í bankanum verði ráðin. Sjá meðf. skrif Eiríks:
        
http://eirikurjonsson.is/fl-group-drottningin-ordud-vid-landsbankann/ 

Náttfari er ekki sammála þessari tilgátu. Verði maður úr bankanum fyrir valinu, hlýtur Árni Þorbjörnsson að standa best að vígi en hann er með langan og farsælan starfsferil að baki innan Landsbankans og gegnir nú stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs.

Ekki er víst að fagmaður úr bankakerfinu verði fyrir valinu. Ætla má að einhverjir fyrrverandi stjórnmálamenn líti þessa stóru stöðu hýru auga. Vandinn er sá að fæstir þeirra njóta trausts eða virðingar. Það væri þá helst Einar Kristinn Guðfinnsson fyrrverandi þingforseti.

Einhverjir embættismenn munu reyna.
Dæmi um það gætu verið Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslu ríkisins og tilteknir ráðuneytisstjórar. Það mun ekki ganga upp.

Bent hefur verið á Sigurð Atla Jónsson, bankastjóra Kviku, en hann hefur unnið mjög gott starf þar. Gunnar Helgi Hálfdánarson, fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbanka, gæti einnig leyst þetta verkefni vel af hendi.

Náttfari spáir því að ekki verði ráðið í þessa stöðu fyrr en í mars nk. og þá verði enginn fyrir valinu sem enn hefur verið nefndur.

Ekki kæmi á óvart þó næsti bankastjóri Landsbankans sé nú starfandi í útlöndum.