Hvaða valdabarátta, sigmundur?

Enn gerir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, háttvirtur þingmaður, sig að athlægi. Nú síðast með því að benda fingri á samstarfsflokkinn og tala um “valdabaráttu” í Sjálfstæðisflokknum og að hann hafi verið að reyna að “hjálpa” Bjarna Benediktssyni með vanhugsaðri kröfu sinni um þingrof sem forsetinn gerði hann afturreka með og niðurlægði með hætti sem óþekktur er í sögu lýðveldisins fram að þessu.

Það er engin valdabarátta í Sjálfstæðisflokknum. Þó svo formaður og varaformaður séu með veika stöðu vegna Tortóla og formaðurinn vegna ýmissa annara vafninga, þá er flokkurinn nær einhuga á bak við þau.

Ástæðan er einföld: Það er ekki um neitt annað að velja en núverandi forystu. Það er engin samkeppni í flokksforystunni. Það er ekkert framboð af hæfu fólki. Það er ekkert fólk sem flokkurinn gæti klofnað um. Flokkurinn er rúinn hæfileikafólki. Flokkar eða aðrir hópar geta ekki klofnað nema um eitthvað sé að ræða til að kljúfa.

Valdabarátta er varla til í Sjálfstæðisflokknum núna. Innan þingflokks eru nokkrir sem nöldra vegna þess að þeir hafa ekki fengið að taka sæti í ríkisstjórn í stað þeirra sem hafa brugðist. Þegar Hanna Birna var hrakin frá, voru nokkrir þingmenn sem töldu sig rétt kjörna til að taka við að henni. En Bjarni treysti engum nema Einari Guðfinnssyni sem vildi ekki bera krossinn. Hann skipaði þá mæta utanþingskonu. Hún á því miður við veikindi að stríða.  Eftir sátu fúlir þingmenn, Unnur Brá Konráðsdóttir, Jón Gunnarsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Aðrir komu aldrei til greina.

Þegar Sigmundur hrökklaðist frá kölluðu nokkrir þingmenn eftir því að nú yrði stokkað upp og Illugi Gunnarsson hinn vanhæfi, ásamt Ragnheiði Elínu hinni óhæfu, fengju hvíld og aðrir kæmu inn. Þetta var bara létt nöldur svekktra fótgönguliða. En fjarri því að geta kallast “valdabarátta”. Þetta var í besta flalli fellibylur í fingurbjörg.

Valdabaráttan er með öðrum hætti:

Það er valdabarátta í Framsókn sem er rúin trausti, veglaus og sundurskotin eftir að Sigmudnur Davíð hefur svikið flokksmenn sína og þjóðina alla með hroka og siðleysi. Þar verður nú tekist á um Höskuld, Sigurð Inga (einnota forsætisráðherra) og Sigmund sjálfan sem mun reyna að klóra sig til baka. Sigmundi verður hafnað. Þá verður sagt: Hann féll og fall hans var mikið.

Í Samfylkingu er tekist á um formann. Ef Helgi Hjörvar vinnur, þá fer Samfylkingin “heim” í Alþýðubandalagið en vinni Árin  Páll, sem gæti orðið niðurstaðan eftir atburði liðinna daga, þá mun flokkurinn enn dóla á miðjunni.

Í Sjáfstæðisflokknum er engin valdabarátta. Svo lengi sem Bjarni Ben þarf ekki að hrökklast frá vegna Tortóla, Vafninga, Borgunar eða annarra vondra mála. Þau eru því miður nokkur dólandi. En sjáum til. Gefum honum óvissuna sér í hag.

Þurfi Bjarni að stíga niður, þá er sviðið autt. Enginn.

Hver gæti orðið formaður flokksins?  Ólöf gæti það ekki vegna heilsu sinnar. Ekki þarf að nefna Hönnu Birnu, Illuga eða Ragnheiði Elínu.  Flokkurinn hlýtur að bíða færis á að losna við þau öll.

Innan núverandi þingflokks eru einungis tveir menn sem gætu tekið við til bráðabirða. Það eru Einar Kristinn og Kristján Þór. Hvorugur gæti gert mikið annað en að halda sjó. En gætu það þó væntanlega.

Gefist Bjarni Ben upp vegna vandræðamála, spái ég því að flokksmenn falli grátandi á hné sér og biðji Davíð Oddsson að koma til baka fram yfir næstu kosningar.

Það yrði þó saga til næsta bæjar!

 

Svona er Ísland í dag.