Hundruð áskrifenda að fjallaferðum

Skipulagðar ferðir á vegum Ferðafélags Íslands njóta orðið þvílíkra vinsælda á meðal Íslendinga að annað eins hefur ekki þekkst úr sögu félagsins sem stofnað var fyrir nálega 90 árum, en tilgangur þess er að stuðla að ferðalögum um Ísland og greiða fyrir þeim. Ólíkt því sem áður var eru nú hundruð áskrifenda að reglubundnum fjallaferðum á vegum félagsins, en mörg verkefni þess á undanförnum árum hafa slegið rækilega í gegn og hreyft rækilega við landsmönnum sem flykkjast fyrir vikið á fjöll og fræga gönguslóða undir leiðsögn reynslumikilla fararstjóra Ferðafélagsins. 


Páll var í viðtali í heilsu- og útivistarþættinum Lífsstíl í gærkvöld á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og segir skýringuna á þessum aukna útivistaráhuga mega að hluta rekja til eftirmála hrunsins; fólk hafi þá í auknum mæli farið að ferðast innanlands og uppgötvað í ríkari mæli töfra íslenskrar náttúru, en einnig megi meiri vinsældir fjallaferða tengja við virkari ferðaklúbba sem hafi sprottið upp sem skilgetið afkvæmi margra fjallaverkefna Ferðafélagsins. "Og menn ánetjast þessu smám saman og átta sig enda á að gönguferðir um landið eru fyrir fólk á öllum aldri og ekkert endilega bara fyrir þá sem eru líkamlega vel á sig komnir. Æfingin kemur fljótt - og eftir eina langferð þrá menn þá næstu og svo koll af kolli. Klúbbar sem áður fyrr fóru kannski eina ferð á sumri fara nú margir hverjir þrjár ferðir milli vors og haustmánaða, jafnvel fleiri. Ein ferð nægir bara ekki lengur." 


Hægt er að nálgast upplýsingar um ferðir Ferðafélagsins og sérverkefni á þess vegum á netslóðinni fi.is.