Skelltu í vikulanga eggjaböku

Hádegismaturinn í vinnunni getur oft verið höfuðverkur - og reyndar veldur hann á stundum höfuðverki af því hann er ekki valinn af kostgæfni. Æ fleiri fara þá leið að taka með sér nesti að heiman, ýmist afganga frá því kvöldmatnum deginum áður, eða setja undir sig hausinn og elda eitthvert gúmmilaði á sunnudegi sem nýtist alla vinnuvikuna á enda. Í heimi næringarfræðinnar er eggið ekki aðeins fullt hús matar, heldur fær það fullt hús stiga þegar kemur að næringu og orku. Egg eru raunar svo næringarrík að oft er talað um þau sem fjölvítamín náttúrunnar. Þau innihalda ýmis sjaldgæf efni sem fjölda fólks skortir, svo sem ákveðin andoxunarefni og mikilvæg næringarefni fyrir heilann. Egg eru að auki hlaðin steinefnum, hágæða próteinum og góðum fitum.


Í þessu ljósi er gráupplagt að skella í eina stóra eggjaböku seinnipartinn á sunnudögum og nota það grænmeti sem enn er eftir í ísskápnum út í hræruna, svo og þá osta sem eru kannski við það að falla á dagsetningu. Skiptið svo bökunni í fimm skammta og komið fyrir í litlum boxum sem fást í flestum matvörubúðum og geymið annaðhvort í ísskápnum eða frystinum - og grípið svo með ykkur að morgni hvers vinnudags. Upplagt er að borða eina sneið af grófu og trefjaríku brauðmeti með bökunni og drekka auðvitað vatn með - og þá er deginum bjargað; hollt og gott prótein og kolvetni efla hönd og hugsun fram eftir degi.