Fáið ykkur gúlsopa af olíu

Húðin þarf ekki að vera þurr:
Suður í höfum, eins og segir í laginu, er fólk óhrætt við að slurka í sig bragðgóðum olíum úr ríki náttúrunnar. Þar við strendur kemur góð og ilmandi ólífuolía á margan hátt í staðinn fyrir lýsið góða úr norðurhöfum, en hvorutveggja er auðvitað svo vítamínríkt að enn sætir undrum. Olíurnar góðu - og kaldpressaðar vel að merkja - eru ekki einasta til þess fallnar að bæta efnabúskap líkamans heldur eru þær upplagt bætiefni og mýkja stærsta líffæri mannsins; húðina. Hjá yngri konum er þurr húð einatt rakin til skorts á góðum olíum, en hjá eldri konum stafar þurrkurinn stundum líka af of lítilli vatnsinntöku. Þetta tvennt fer einmitt saman þegar kemur að þurri húð: Inntaka á góðum kaldhreinsuðum olíum skilar sér mjög fljótt og vel út í húðina - og eftir því sem fólk man betur og oftar eftir því að drekka vatn úr næsta krana getur það haldið aftur af hrukkumyndun, brúnum blettum, grófri og slappari húð. Vatn og olíur geta hér breytt miklu, en einnig benda næringarfræðingar á mikilvægi þess að neyta grænmetis, ávaxta, korns, fræja og hneta svo góður raki haldist í húðinni. Þá megi einnig nefna hvítlauk, egg og jafnvel spergilkál sem haldi húðinni mjúkri og unglegri.