Hreinn matur, 1 nammidagur

Annie Mist Þórisdóttir, tvöfaldur heimsmeistari kvenna í crossfit, leggur höfuðáherslu á að snæða hreinan mat, helst án allra aðskotaefna. Eftir því sem innihaldslýsingin sé styttri þeim mun betri og hollari sé fæðan sem fólk neytir. Óunnið kjöt og fiskur sé það besta fyrir skrokkinn - og raunar huga jafnt sem hönd, en heldur megi ekki gleyma fersku grænmeti og ávöxtum sem skipti sköpum fyrir búskap líkamans, ekki síst trefjarnar sem fáist með því að tyggja þessa hollustu. Þetta kom fram í þættinum Lífsstíl á Hringbraut á mánudag þar sem Annie var gestur, en hún nefndi líka að hún hefði alltaf einn nammidag í viku til að breyta til, en aðeins einn - og þá slakaði hún lítillega á þessum kröfum og fengi sér hæfilega mikla óhollustu að borða. En, bara einu sinni í viku!