Taktu eggið og fiskinn að heiman

Mörgum finnst þægilegt að grípa með sér öskju af salati í næstu hverfisverslun til að borða í hádegishléinu í vinnunni. Það er gott og vel, enda um heilnæman og ferskan mat að ræða, lausan í nær öllum tilvikum við aukaefni og þar að auki heldur ódýrari en annar almennur hádegisbiti. Venjuleg grænmetisaskja kostar á bilinu 700 til 900 krónur, en verðið fer eftir þyngd innihaldsins og þar með vitaskuld eðlisþyngd þess matar sem settur er ofan í öskjuna. Margir sem velja sér þennan hádegisbita að jafnaði eru farnir að sjóða eggin, sem eru ómissandi í hverri öskju, heima hjá sér deginum áður - og þeir sem eru lengra komnir eiga í fórum sínum nokkrar dósir af túnfiski í skrifborðsskúffunni, en hvorutveggja, eggin og fiskurinn, eru til þess fallin að drýgja grænmetisskammtinn. Fyrir vikið er nóg að kaupa hálfa öskju af fersku grænmeti úti í búð, á kannski 500 krónur og bæta svo einu eða tveimur eggjum ásamt lófafylli af túnfiski út í skammtinn þegar komið er aftur í vinnuna til að njóta matarins. Egg og túnfiskur er ákaflega próteinríkur matur sem er þeirrar gerðar að fólk fær sjaldan eða ekki leið á honum, en þess utan gefur hann mikla orku sem dugar fram eftir degi.