Það er mikilvægt að tyggja

Alls konar heilsusafar hafa notið mikilla vinsælda á Íslandi á síðustu árum og sér þess vel stað í matvörubúðum þar sem rekkarnir undir safana eru að verða æ stærri og fyrirferðarmeiri. Safar af þessu tagi eru góðra gjalda verðir og innihalda oft og tíðum mikla hollustu, en næringarfræðingar benda á að þeir komi þó ekki í staðinn fyrir ávextina sjálfa sem safarnir eru að uppistöðu búnir til úr. Þeir leggja mikla áherslu á að börn og fullorðið fólk tyggi þá ávexti sem það neyti; þannig njóti fólks allra þeirra mikilvægu og heilnæmu trefja sem hver ávöxtur hefur að geyma. Þessar trefjar liggja einatt óbættar hjá garði þegar ávextir eru kreistir í safagerðinni og þannig missir fólk, sem nær eingöngu neytir ávaxta í safaformi, af einum mikilvægasta hluta hvers ávaxtar. Trefjar eru nauðsynlegar heilsu fólks vegna þess að þær hjálpa til við útskilnað úrgangsefna úr meltingarfærum, bera óæskileg efni úr líkamanum og geta þannig dregið úr hjartasjúkdómum og krabbameini. Þar að auki geta trefjar dregið úr löngun í mat.