Besta meðlætið með fiski og kjöti

Á stundum fær maður auðvitað dauðleið á því sem maður borðar reglulega, en þá er ráð að taka til á disknum - og prófa nýja áferð í munni, að ekki sé talað um annað bragð og vitaskuld meiri hollustu: Jæja, haldið ykkur fast ...og helst við eldfasta mótið; skellið því upp á eldhúsbekkinn og komið við hliðina á skurðarbrettinu. Í grennd eru þrjár gersemar; sætar kartöflur sem eru skornar í smáa teninga (1 cm), rauðrófa sem er sneidd í franskar og loks spergilkál (broccoli) sem klippt er niður í netta munnbita. Setjið allan þennan unað í skúffuna við hliðina á brettinu, dassið með góðri kókosolíu og hendið yfir ykkar hversdagslega skammti af sjávarsalti. Svo er bara að baka ljúfmetið í 20 mínútur ... og voilá - meðlætið með fiskinum eða kjötinu er komið, séð og sigrað - já, verði ykkur að góðu!