Skilnaður korter í fæðingu - hafdís: „þá bað ég hann um að flytja út“

Hafdís Björg Kristjánsdóttir er 31 árs gömul einstæð fimm drengja móðir. Hún hefur þrátt fyrir ungan aldur getið sér góðs orðs í fitnessheiminum og unnið til titla. Hún stefnir nú á atvinnumennsku í greininni og segist þurfa að leggja enn harðar að sér en áður, sonum sínum og yngri keppenda í fitness til fyrirmyndar.

Hafdís og Gunnar Sigurðsson eiginmaður hennar skildu þegar yngsti sonurinn, Sigurður, var aðeins fjögurra vikna gamall. Hún segir barnsföður sinn hafa áttað sig full seint á því að hann hafi ekki viljað samband með öllu því sem fylgdi.

Í viðtali í nýjasta tölublaði DV lýsir Hafdís skilnaðinum svo:

„Hann [barnsfaðirinn] tók einhverja u-beygju þarna í desember, korter í fæðingu. Og þegar Sigurður var fjögurra vikna þá bað ég hann að flytja út og mamma kom í bæinn til að aðstoða mig. Ég veit ekki hvar ég væri án hennar.“

\"\"

Hún segist í dag vera komin yfir reiðina og sorgina, sem hafi þyrmt yfir hana við skilnaðinn.

„Ég er fegin að við sögðum engum frá skilnaðinum fyrr en í mars eða apríl, þá var ég komin yfir reiðina og sorgina og orðin sátt. Margir hafa orðið mjög reiðir, en ég er komin yfir þetta og reiðist því ekki með þeim. Hvort sem mér líkar betur eða verr þá er ég að fara að ala tvo syni upp með barnsföður mínum næstu 18 ár og það er mikilvægt að muna þegar börn eru í spilinu að skilnaður fari ekki út í eitthvert skítkast.”

Hafdís segir mikilvægt að sætta sig ekki við aðstæður sem maður vilji ekki vera í.

„Mér finnst ég eiga allt það besta skilið og er ekki hrædd við að vera ein, maður á ekki að sætta sig við aðstæður sem maður vill ekki vera í. Ég hef alltaf lifað þannig að ég hugsa; ef ég dey á morgun vil ég þá vera eins og ég er í dag? Lífið er of dýrmætt til að ég bara sætti mig við eitthvað.“

Ítarlegt viðtal við Hafdísi er að finna í DV.