Mynd dagsins: guðný ása - „svona velur enginn að vera og óumbeðnar athugasemdir hjálpa ekki til“

Guðný Ása Guðmundsdóttir þjáist af húðsjúkdómnum Rósroða. Ekki er vitað hvað veldur sjúkdómnum og engin lækning er til við honum.

„Það væri jákvætt fyrir okkur öll sem lifum með þessu ef fólk hefði meiri skilning á þessu eða jafnvel bara hugmynd um að þetta er tiltölulega algengur húðsjúkdómur. Ég hafði aldrei heyrt um rósroða fyrr en ég greindist sjálf og hélt að ég væri bara að gera allt vitlaust, svona eins og fólk þreytist ekki á að benda manni á,“ segir Guðný Ása í samtali við Hringbraut.

Hefur mikil áhrif á sjálfsmyndina

Til eru ýmis meðul og krem fyrir fólk með Rósroða sem ná stundum að minnka einkenni hans en segir Guðný það ganga afar illa í hennar tilfelli.

„Hér sjáið þið til dæmis hversu glettilega vel tekst að smella farða yfir herlegheitin í hlélegri viðleitni til að hylja þó ekki væri nema örðu af lýtunum sem hann veldur. Í stað eldrauðs bólgutrýnis er hér komið flagnandi flekkótt fés með glæsilegum farðaskellum. Það sést ekki einu sinni hve slæmt þetta er á myndinni því síminn var gallharður á að filtera ósköpin aðeins. Eins og gefur að skilja hefur þetta ekki lítil áhrif á sjálfsmyndina.“


\"\"

Þreytt á óumbeðnum ráðum

Guðný segist vilja opna sig um sjúkdóminn í þeirri von um að fólk skilji að svona velji enginn að vera.

„Svona velur enginn að vera og óumbeðnar athugasemdir um snyrtivörur, vítamín, hreinsiefni, krem, lifrarhreinsunarkúra, mataræði, jóga, skaðsemi sælgætisneyslu eða að vera í of þröngum nærbuxum hjálpa ekki til.“

Þá tekur Guðný í létta strengi og segist taka að sér hlutverk Grýlu á jólaskemmtunum.

„Get einnig komið í heimahús og hrætt börn til hlýðni, sé þess óskað. Lágmarksþóknun (kostnaður við gervi er enginn, win/win!)“