Guðni th. og ólafur ragnar – einvígi aldarinnar

Dr. Guðni Th. Jóhannesson, prófessor, mun tilkynna um forsetaframboð sitt á fundi sem haldinn verður nk. fimmtudag í Salnum, Kópavogi. Búist er við fjölmenni.

Fullvíst er að Guðni boðar ekki mörg hundruð manns til fundar á miðjum frídegi til að tilkynna um annað en framboð. Hann hefur verið að mælast sterkur í skoðanakönnunum þó svo hann hafi ekki enn lýst formlega yfir framboði sínu.

Flest bendir til þess að hann geti orðið Ólafi Ragnari skeinuhættur og líklegur til að fella hann af stalli. Það yrði saga til næsta bæjar.

Aðrir sem hafa verið að mælast með nokkuð fylgi virðast ekki ætla að rísa í þær hæðir sem Guðni Th. gæti náð. Þjóðin gæti hæglega skipst í tvær álíka stórar fylkingar; þeir sem vilja breytingar og telja nóg komið af núverandi forseta eftir 20 ára vakt og hinir sem eru sammála honum um að mikil óvissa sé framundan sem kalli á handleiðslu hins margreynda stjórnmálamanns. 

Reynist Guðni langlíklegastur áskorendanna til að ná í mark, mætti jafnvel gera ráð fyrir því að flestir sem þegar hafa tilkynnt framboð myndu draga sig í hlé. Þá yrði kosningabaráttan hreint einvígi milli Guðna Th. og Ólafs Ragnars.

Það yrði einvígi aldarinnar sem gæti endað á hvorn veginn sem er.