Guðni hefur gjörbreytt andrúmsloftinu og leggur grunn að breyttri stjórnmálamenningu

Guðni Th Jóhannesson hefur gegnt embætti forseta í tæpan mánuð og hefur á þeim skamma tíma gjörbreytt ásýnd embættisins. Hann hefur komið fram sem einlægur, víðsýnn og auðmjúkur maður fólksins. Valdhrokinn er liðinn undir lok og það minnist varla nokkur maður lengur á Ólaf Ragnar Grímsson.
 
Guðni hóf störf sín með því að heimsækja Sóheima í Grímsnesi og heiðraði með því það einstka mannúðarstarf sem þar er unnið. Þá tók hann þátt í fjöldahátíð fólks á Dalvík, ávarpaði gleðigöngu samkynhneigðra, en fyrirrennarinn hafði ekki fengist til þess, hljóp hálfmararþon – ekki til að sýnast heldur eins og venjulega. Guðni hættir ekki að vera Guðni þó hann hafi tekið við þessu embætti. Fólk rekst á hann úti í búð, hann vill ekki láta kalla sig “herra” og hann afþakkar fylgd handhafa forsetavalds út á flugvöll bregði hann sér úr landi. Guðni er að afnema hallærislegar og gamaldags hefðir sem fyrir löngu hefði átt að vera búið að afleggja.
 
Allt þetta hefur hann gert á einum mánuði. Fólk er heillað af framkomu hans og sér að hann er boðberi nýrra tíma á Íslandi. Gamli tími valdhroka og átakastjórnmála er að líða undir lok. Úrslit forsetakosninganna sýndu það svo ekki verður um villst þegar Davíð Oddssyni var gjörsamlega hafnað. Hann er hinn helsti tákngervingur gömlu átakatímanna í íslenskum stjórnmálum. 
 
Þjóðin kvaddi Ólaf Ragnar og Davíð samtímis með afgerandi hætti. Snyrtileg tiltekt og nánast ekki flóknari en sá verknaður að fara út með ruslið.
 
Það má alveg velta því fyrir sér hvort kjósendur muni ekki gera sömu kröfu um breytingar í komandi alþingiskosningum. Má ekki ætla að kjósendur muni í vaxandi mæli afþakka þjónustu fjórflokksins og veðji á ný vinnubrögð nýrra flokka sem gætu orðið boðberar þeirra nýju tíma sem Guðni Th. Jóhannesson er nú að innleiða sem forseti Íslands?
 
Við upplifum nú tíma mikilla breytinga á Íslandi. Ef vel tekst til eins og við val á forseta, þá stöndum við nú á þröskuldi bjartra tíma framundan.