Gleymdi mogginn að rukka?

Búið er að birta uppgjör fyrir forsetaframboð Davíðs Oddssonar sem skilaði honum 13,7% fylgi og 4. sæti í baráttunni um Bessastaði. Næsta sæti fyrir ofan Sturlu trukkabílstjóra.

 
Samkvæmt uppgjörinu nam heildarkostnaður við framboðið 28 milljónum króna sem er svipað og hjá sigurvegaranum, Guðna Th. Jóhannessyni. Allir sem fylgdust með kosningabaráttunni sáu að Davíð hafði mun meiri umsvif í kosningabaráttunni en Guðni. Hann auglýsti jafnt og þétt í öllum helstu miðlum; sjónvarpi, útvarpi, blöðum, netmiðlum og veltiskiltum. Það var langtum meira en aðrir gerðu. Ekki verður tölu komið á fjölda þeirra heilsíðuauglýsinga sem birtust í Morgunblaðinu og sama gildir um mikið magn auglýsinga sem birtar voru á Mbl.is.  Hafi raunverulega tekist að reka alla kosningabaráttu Davíðs fyrir 28 m.kr. þá er það afrek sem fer í sögubækur.
 
Er hugsanlegt að Árvakur hf., sem rekur Morgunblaðið og Mbl.is, hafi “gleymt” að rukka framboðið fyrir allar auglýsingarnar eða þá verðlagt þær á brot af því sem talist getur eðlilegt markaðsverð?
 
Full ástæða er til að Ríkisendurskoðun yfirfari það og reyndar kostnaðarhlið þeirra skýrslna sem koma frá forsetaframbjóðendunum öllum. Það er í verkahring Ríkisendurskoðunar að hafa eftirlit með þessu og birta upplýsingar um uppgjörin eins og gert hefur verið.
 
Annars er fróðlegt að sjá hverjir eru helstu styrktaraðilar framboðsins. Það þarf ekki að koma á óvart að sægreifar eru þar lang fyrirferðarmestir, bæði einstaklingar og fyrirtæki. Má þar nefna fyrirtæki Guðbjargar Matthíasdóttur í Vestmannaeyjum sem á þriðjung Árvakurs hf. en Ísfélag Vestmannaeyja, ÍSAM og Lýsi eru öll með 400.000 kr. styrk. Þórólfur Gíslason á Sauðárkróki einnig, svo og Kaupfélag Skagfirðinga. Sama gildir um eftirtalda: Kristján Loftsson í Granda, Þorbjörn hf. í Grindavík, Ramma hf. á Siglufirði, Hraðfrystihús Hellisands,  Dalborg ehf., Einhamar Seafood ehf. og Krossanes eignir ehf.
 
Á bak við hvert prósentustig sem Guðni Th. Jóhannesson fékk í kosningunum var rúmlega 600 þús.kr. kostnaður en 2 milljónir á bak við hverja prósentu hjá Davíð, miðað við fram komnar upplýsingar.