Matardiskarnir hafa stækkað

Það er ekki einasta að umbúðir utan um margan matinn hafi stækkað að nokkrum mun í seinni tíð - og ofgnóttin að öllu leyti aukist, heldur gleyma neytendur því líka að venjulegir matardiskar, hvort heldur þeir eru keyptir í IKEA eða bara í næstu búð, hafa stækkað töluvert á síðustu árum. Ef matardiskar frá því á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar eru skoðaðir kemur í ljós að þeir eru frá því að vera 30 til 50 prósentum minni að flatarmáli en þeir matardiskar sem eru á boðstólum við dagsbrún nýrrar aldar. Þessi breyting hefur eðlilega kallað á stærri matarskammta í öll mál að mati Önnu Sigríðar Ólafsdóttur næringarfræðings sem verður einn af sérfræðingum þáttarins Lífsstíls sem er á dagskrá Hringbrautar á mánudagskvöldum í vetur. Anna Sigga, eins og hún er jafnan kölluð, segir þetta vera gleymdu ástæðuna fyrir því að meðalþyngd Íslendinga, sem og margra annarra þjóða, hefur farið vaxandi á síðustu árum. Almenningur hafi varla áttað sig á þessari breytingu, en taki jafnan uppeldi sitt alvarlega og reyni að klára allan matinn sem settur hefur verið á diskinn. Þessu má raunar líkja við flatbökuna vinsælu; í reynd sé nútímafólk að borða 12 tommu pizzu í hvert mál í staðinn fyrir 9 tommu pizzu sem nægði öllu venjulegu fólki fram eftir allri síðustu öld.