Gengur hanna birna aftur?

Einhverjum sjálfstæðismönnum hefur komið til hugar að Hanna Birna Kristjánsdóttir gæti átt endurkomu í stjórnmálin og þá til að leiða lista flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Nýleg skoðanakönnun sýnir að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur vaxið frá þeirri miklu niðurlægingu sem flokkurinn mátti þola í borgarstjórnarkosningunum vorið 2014. Þá fékk hann einungis fjóra menn kjörna sem er það lakasta í sögunni. Nú mælist fylgið yfir 30% sem er þó fjarri því nægilegt til að fella núverandi meirihluta sem hefur misst fylgi samkvæmt skoðanakönnun.

Núverandi borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þykja vægast sagt ekki líklegir til stórræða í næstu kosningum. Júlíus Vífill Ingvarsson sem var kjörinn borgarfulltrúi flokksins 2014 þurfti að segja af sér vegna Tortólamála. Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir verma nú þessi fjögur sæti í daufum minnihluta flokksins í borginni.

Flestir telja að óhjákvæmilegt sé fyrir Sjálfstæðisflokkinn að skipta alveg um frambjóðendur flokksins fyrir næstu kosningar. Þá skiptir langmestu máli hver fær það hlutverk að leiða listann.

Enginn augljós kostur blasir við. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur oft verið nefndur en auðvitað fer hann ekki að kasta frá sér ráðherrasæti fyrir vonlítinn slag í borgarstjórn. Það segir sig sjálft. Einhver nöfn hafa verið nefnd í gríni eins og Gísli Marteinn Baldursson og Svanhildur Hólm Valsdóttir, bæði þekkt frá fyrri tíð sem sjónvarpsþulur.

Því beinast sjónir að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Hún var lengi borgarfulltrúi, borgarráðsmaður, forseti borgarstjórnar og auk þess borgarstjóri á árunum 2008 til 2010. Hún leiddi lista flokksins vorið 2010 en tapaði fyrir Jóni Gnarr við vægast sagt erfiðar aðstæður.

Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir Alþingiskosningarnar 2013 vann hún yfirburðasigur og leiddi flokkinn í Reykjavík. Hún þótti þá sjálfsagður ráðherra enda var hún varaformaður flokksins á þeim tíma. Hanna Birna tók við embætti innanríkisráðherra en sagði af sér vegna svokallaðs lekamáls. Hún gaf svo ekki kost á sér til endurkjörs í síðustu Alþingiskosningum.

Því skyldu ein mistök á pólitískum ferli hamla gegn endurkomu í stjórnmálin þegar um svo reyndan og hæfan stjórnmálamann eins og Hönnu Birnu er að ræða?

Sjálfstæðisflokkurinn þarf á henni að halda til að leiða lista flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur vorið 2018.

Það er enginn annar öflugur leiðtogi flokksins í sjónmáli.

Hanna Birna mun ganga aftur.